Skora á fólk að hafna sameiningu - Ólafur Bernódusson Skagaströnd

Ólafur Bernódusson kennari, námsráðgjafi og verkefnisstjóri í Höfðaskóla á Skagaströnd, er mjög skeptískur á sameiningu og hvetur fólk til að hafna henni í kosningunum. Ólafur er fæddur og uppalinn á Skagaströnd, giftur, þriggja barna faðir.

Hvernig líst þér á að sveitarfélögin í Austur-Húnavatnssýslu verði sameinuð?
-Ég er andvígur sameiningu. Einkum vegna mjög ólíkra fjárhagsstöðu sveitarfélaganna. Ég kaupi heldur ekki þau rök að við verðum að sameinast til að öðlast aukinn slagkraft gagnvart stjórnvöldum. Ég tel að sveitarfélögin geti sem best unnið saman og komið fram sem eitt gagnvart stjórnvöldum í þeim málum sem snerta hag íbúanna á svæðinu, án sameiningar.

Hvað telur þú jákvætt við þær?
-Ég sé svosem ekkert jákvætt við sameiningu og finnst hún óþörf. Sveitarfélögin hafa starfað ágætlega saman, sem sjálfstæðar einingar, gegnum byggðasamlög að þeim verkefnum þar sem samstöðu er þörf. Ég veit ekki betur en sú samvinna hafi reynst vel.

Hvað neikvætt?
-Fjárhagsleg staða stærstu sveitarfélaganna er með öllu ósamrýmanleg að mínu mati. Þá er það nú svo að reynslan kennir okkur að þrátt fyrir fögur fyrirheit og loforð um jafnrétti og jafnvægi milli sveitarfélaga eftir sameiningu hafa minni/fámennari byggðirnar ávalt misst stöðu sína gagnvart hinum fjölmennari. Dæmi um þetta hér á Norðurlandi eru Ólafsfjörður/Siglufjörður, Hofsós /Sauðárkrókur og jafnvel Laugarbakki/Hvammstangi. Þá bendi ég líka á að þeir fjármunir sem stjórnvöld lofa að leggja til sveitarfélagana á að greiðast á sjö ára tímabili þannig að þeir fjármunir vatnast dálítið mikið út.

Hvernig telur þú að sameining eigi eftir að breyta þinni afkomu ef nokkuð?
-Ég sé ekki að ef af sameiningu verður muni það breyta afkomu minni að öðru leyti en því að skuldir mínar, sem íbúa hins nýja sveitarfélags, munu aukast mjög mikið.

Hefur þú fylgst með umræðum og skrifum á heimasíðu sameiningarnefndar Húnvetningur.is?
-Já, það hef ég gert.

Er eitthvað sem þér finnst tortryggilegt sem sett er fram um hugsanlega sameiningu?
-Kannski ekki tortryggilegt en bendi á að öll loforð, sem gefin eru um hvernig hlutirnir verða í framtíðinni eru innihaldslaus því sú sveitarstjórn, sem kosin verður 2022, er algjörlega óbundin af því sem sagt er fyrir sameiningarkosningarnar. Sú stjórn mun taka sínar ákvarðanir út frá þeim forsendum sem þá verða uppi.

Er eitthvað þar sem þú ert virkilega sammála?
-Mér finnst skynsamlegt að Húnavallaskóli og Blönduskóli sameinist - og þá á jafnréttisgrunni. Að mínu viti væri hægt að gera það án þess að sameina sveitarfélögin. Bendi á áratuga góða reynslu af að nemendur úr Skagabyggð hafa sótt Höfðaskóla án þess að sveitarfélögin væru sameinuð. Það er gott dæmi um góða samvinnu sjálfstæðra sveitarfélaga.

Hvað gætir þú hugsað þér að sameinað sveitarfélag myndi heita?
-
Hef ekki skoðun á því.

Eitthvað sem þú vilt koma á framfæri?
-Ég vil skora á fólk að hafna sameiningu en vera opið fyrir samvinnu þar sem hennar er þörf. Einnig samstöðu gagnvart ríkisvaldinu, sem mér finnst undarlegt að líta á sem óvinveitt á skynsamlegar framfarir í A -Hún.

 

 

Í tilefni íbúakosninganna í Austur-Húnavatnssýslu, þar sem fjögur sveitarfélög bíða örlaga sinna um sameiningu eður ei, sendi Feykir, af handahófi, fjórum einstaklingum úr sitthverju sveitarfélagi héraðsins, spurningar til að kanna hug þeirra til verkefnisins og birtist í 20. tbl. Feykis 2021, sjá HÉR.

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir