Skólalóð Blönduskóla fær andlitslyftingu
Húni.is segir frá því að unnið hefur verið að frágangi skólalóðar Blönduskóla í haust. Malbikaðir voru um 1.200 fermetrar og snjóbræðsla sett undir hluta af því svæði. Á næstu dögum verða malbikaðir um 250 fermetrar til viðbótarog þá verða grassvæði einnig jöfnuð og gengið frá með túnþökum. Að auki verða settar upp rólur með frágengnu yfirborði.
Í fréttinni segir: „Mikið rask hefur fylgt þessum framkvæmdum enda verið að móta skólalóðina að kastalasvæðinu og að nýbyggingu skólans. Vegna lengri framkvæmdatíma á nýbyggingunni seinkaði framkvæmdum við lóðina en þær voru háðar því að verkataki væri farin af svæðinu með krana og byggingarefni.
Helstu verktakar hafa verið Ósverk ehf., N1 píparinn ehf., Malbikun Akureyrar ehf. auk fleiri aðila. Einnig hafa starfsmenn Þjónustumiðstöðvar Blönduósbæjar komið að verkinu. Hönnun lóðar var unnin af Halldóri Jóhannssyni, landslagsarkitekt og hefur Verkfræðistofan Stoð ehf. sé um allar útsetningar og útfærslur í samvinnu við Tæknideild Blönduósbæjar. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir ársins við skólalóðina kosti að minnsta kosti um 20 milljónir króna.“
Malbikaður verður hluti af gangstétt efst í Sunnubraut en stefnt er að því að ljúka við gangstéttagerð við Sunnubraut á næsta ári. Aðrar malbikunarframkvæmdir á Blönduósi voru á vegum Ámundakinnar við Húnabraut 4 og Efstubraut 1.
Heimild: Húni.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.