Sigurður Orri Kristjánsson býður sig fram á lista Samfylkingar

Ég, Sigurður Orri Kristjánsson, býð mig fram í 1. – 4. sæti á framboðslista Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi fyrir alþingiskosningar 2021. Ég var í 4. sæti á framboðslista Samfylkingarinnar fyrir síðustu kosningar til Alþingis árið 2017.

Norðvesturkjördæmi eru mínar heimaslóðir, fyrstu 12 árin bjó ég í Stykkishólmi og næstu 10 ár á Hólmavík. Ég gekk í Menntaskólann á Akureyri og útskrifaðist þaðan með stúdentspróf svo ég þekki það vel hvernig er að flytja að heiman ungur til þess að afla mér menntunar. Sem stendur bý ég í Vesturbæ Reykjavíkur ásamt sambýliskonu minni, Guðrúnu Lilju Kvaran skjalastjóra.

Ég er 33 ára stjórnmálafræðingur að mennt og er sem stendur meistaranemi í tölfræði við Háskóla Íslands. Ég starfa einnig hjá ríkinu á meðferðarheimili fyrir unglinga, er ritstjóri karfan.is, fagmiðli körfubolta á Íslandi og körfuboltalýsandi í sjónvarpi fyrir Stöð 2 Sport.

Ég hef starfað við ýmislegt á síðustu árum en þar ber helst að nefna að ég hef verið hótelstjóri í Cannes í Frakklandi, leiðsögumaður, íþróttafréttamaður og skrifstofumaður. Ég var í framkvæmdastjórn Ungra jafnaðarmanna 2012-2013 og sat einnig í miðstjórn Ungra jafnaðarmanna til 2015.

Ég brenn fyrir því að bæta og verja lífsgæði fólks sem býr í kjördæminu. Þar ber helst að nefna velferðarmál, samgöngur, menntamál og atvinnumál.

Ég skráði mig í Samfylkinguna þegar ég var 16 ára því ég er jafnaðarmaður af lífi og sál og trúi því að við eigum að nýta skattkerfið sem bæði tekjuöflun fyrir ríkissjóð sem og jöfnunartæki fyrir samfélagið. Þess vegna er mikilvægt að hafa þrepaskipt skattkerfi. Það er líka kominn tími til þess að skoða hvort ekki sé hægt að breyta fyrirtækjasköttum þannig að sveitarfélögin fái einhvers konar hlutdeild í þeim skatttekjum. Ekki eingöngu skatttekjum einstaklinga.

Staða þeirra sem hafa lægstu tekjurnar, öryrkja, aldraðra og námsmanna er ekki boðleg sem stendur. Það er ekki nóg segjast ætla að bæta kjörin en svo færast undan í flæmingi þegar kominn er tími á efndir. Samfylkingin verður að vera afl í þágu þeirra sem standa höllustum fæti í okkar samfélagi og gera þeim kleift að taka þátt á þeirra forsendum.

Ég styð inngöngu Íslands í Evrópusambandið. Aðild að myntbandalaginu og upptaka Evru mun hafa mikil og góð áhrif á lífsgæði fólks. Bæði með tilliti til stöðugleika, lánakjara og vaxtastigs. Ísland er í Evrópu og ætti að hafa sæti við borðið.

Nú er tækifæri fyrir Samfylkinguna að uppfæra ásýnd sína. Vera í senn kjölfestuflokkur fyrir jafnaðarmenn úr öllum áttum sem og andlit ákveðins ferskleika um land allt og í kjördæminu. Við eigum að vera flokkurinn sem gerir þeim kleift að flytja í kjördæmið sem vilja starfa þar og byggja upp líf sitt. Það gerum við með því að vera með gott þjónustustig, frábæra skóla og fjölbreytt atvinnulíf. Bæði störf sem eru án staðsetningar sem og störf í geirum á borð við fiskeldi, landbúnað og hefðbundinn sjávarútveg. Þetta verður að sjálfsögðu að vera gert í sátt við umhverfið, en það er ekki hægt að horfa framhjá því hversu mikil lyftistöng fiskeldi hefur verið fyrir samfélögin á sunnanverðum Vestfjörðum.

Ungum frambjóðendum hefur verið treyst í öðrum kjördæmum fyrir sætum ofarlega á lista. Samfylkingin í Norðvesturkjördæmi ætti að gera slíkt hið sama. Nú er tækifærið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir