Samstaða og kærleikur hjá Jólahúnum í Hvammstangakirkju í kvöld

Í kvöld, 21. desember kl. 20:00, munu Jólahúnar í Húnaþingi vestra syngja inn jólin. Allur hagnaður af tónleikunum í Hvammstangakirkju rennur óskiptur til Margrétar Eikar Guðjónsdóttur sem verður næstu mánuði frá vinnu að jafna sig eftir krabbameinsaðgerð.

Að sögn Kristins Rúnars Víglundssonar, sem er einn af forsprökkum tónleikanna, verður flutt jólalagablanda í kirkjunni; jólalögin sem allir þekkja í bland við frumsamin lög og alvöru óperu klassík. Flestir flytjenda verða húnvetnskir en auk þess munu skagfirskir söngvarar láta ljós sín skína. Auk Kristins koma fram þau Valdimar Gunnlaugsson, Ásdís Aþena, Rokkkórinn sem Ingibjörg Jónsdóttir stjórnar, frænkurnar Sveinbjörg Pétursdóttir, Hulda Jóhannesdóttir og Aldís Jóhannesdóttir, Guðrún Eik Skúladóttir, Ragnheiður Petra og Elvar Logi.

Í kynningu á tónleikunum á Facebook segir að Jólahúnar séu hugarfóstur Skúla Einars heitins semlést í nóvember eftir hetjulega baráttu við krabbamein. Einkunnarorð tónleikanna hans Skúla voru og eru samstaða og kærleikur.

Miðaverð er kr. 3.000, borgað er inn við hurð en enginn posi verður á staðnum. Enn var hægt að nálgast miða þegar fréttin var skrifuð en allar upplýsingar er að finna á Facebook-síðu tónleikanna. Kirkjunni og safnaðarheimilinu á Hvammstanga verður skipt upp í þrjú sóttvarnarhólf en 50 manns geta verið í hverju hólfi. Gestir þurfa að skarta grímum, sjálfum sér og öðrum til varnar, en ekki þarf að gangast undir hraðpróf.

Tónleikarnir eru styrktir af Sóknaráætlun Norðurlands vestra og Kaupfélagi Skagfirðinga.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir