Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra opnar Dýrafjarðargöng rafrænt
Dýrafjarðargöng verða opnuð sunnudaginn 25. október nk. en athöfnin verður með óvenjulegu sniði í ljósi þess ástands sem ríkir í þjóðfélaginu. Stutt athöfn fer fram klukkan 14 í húsnæði Vegagerðarinnar Borgartúni 7 þar sem Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra mun halda ræðu sem útvarpað verður í þá bíla sem bíða þess að aka í fyrsta sinn í gegnum göngin.
Í tilkynningu frá Vegagerðinni segir að ráðherra muni hringja í vaktstöð Vegagerðarinnar á Ísafirði sem opnar þá hliðin að göngunum beggja megin frá. Þar með verða göngin opin.
„Vígsla jarðganga er yfirleitt mikill viðburður enda hafa slík göng gríðarmikil áhrif á samgöngur í sveitarfélögum. Vestfirðingar hafa lengi beðið Dýrafjarðarganga sem koma í stað vegarins yfir Hrafnseyrarheiði sem hefur verið einn helsti farartálminn milli byggða á norðanverðum og sunnanverðum Vestfjörðum. Með tilkomu ganganna styttist Vestfjarðavegur um 27,4 km. Til stendur að halda veglegri viðburð með rísandi sól þegar aðstæður í þjóðfélaginu leyfa,“ segir á heimasíðu Vegagerðarinnar. Áhugasamir geta fylgst með viðburðinum sem einnig verður streymt rafrænt á facebooksíðu Vegagerðarinnar.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.