Sameiningartillaga kynnt á íbúafundum

Boðað er til íbúafunda til kynningar á tillögu samstarfsnefndar um sameiningu Blönduósbæjar, Húnavatnshrepps, Skagabyggðar og Sveitarfélagsins Skagastrandar, sem kosið verður um þann 5. júní næstkomandi. Fundunum verður einnig streymt og geta þátttakendur sent spurningar rafrænt til samstarfsnefndar.

Íbúafundir verða haldnir á eftirfarandi stöðum:

Fellsborg á Skagaströnd. Þriðjudaginn 18. maí, kl. 20.00-21:30
Félagsheimilinu á Blönduósi. Miðvikudaginn 19. maí, kl. 20.00-21:30
Húnavöllum í Húnavatnshreppi. Mánudaginn 31. maí, kl. 20.00-21:30
Skagabúð í Skagabyggð. Þriðjudaginn 1. júní, kl. 20.00-21:30.

Á heimasíðu sameiningarnefndar, hunvetningur.is, er greint frá því að íbúum sé frjálst að sækja fundi á þeim stöðum og tímasetningum sem þeim best henta. Þar segir að í ljósi samkomutakmarkana sé mikilvægt að vita hve margir íbúar verða á hverjum fundi.

„Þeir sem mæta á fundina þurfa að skrá sig fyrirfram hér á vefnum. Fundirnir verða sendir út rafrænt á Zoom og verður streymt Facebook síðunni Húnvetningur. Þátttakendur í fundarsal og þeir sem fylgjast með rafrænt geta sent spurningar til samstarfsnefndar í gegnum samráðsforritið menti.com.
Á menti.com er hægt að gefa spurningum annarra atkvæði til að færa þær framar í röðinni eða skrá inn nýja spurningu. Einnig verður boðið upp á hnitmiðaðar spurningar úr sal.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir