Sæþór Már ráðinn blaðamaður á Feyki í sumar

Sæþór Már Hinriksson hefur verið ráðinn blaðamaður á Feyki í sumarafleysingar og hóf störf í gær. Sæþór segist alltaf hafa verið opinn fyrir því að prófa nýja hluti en hann hafði aldrei prófað að vera blaðamaður og fannst því vera kominn tími á það. „Ég hef líka alltaf haft gaman af því að tala við fólk, eða að minnsta kosti gasa um ýmsa hluti og ekki skemmir fyrir að ég hef líka mikinn áhuga á fólki, allskonar fólki. Ég hef mikinn áhuga á okkar nærsamfélagi og reyni að setja mig inn í helstu hluti og málefni sem snerta það, og hef því að taka þátt í því með Feyki að vera spegill á samfélagið,“ segir hann.

Sæþór er ættaður frá Syðstu-Grund í Akrahreppi, sonur Kolbrúnar Maríu Sæmundsdóttur dóttir Sæmundar á Syðstu-Grund frá Grófargili og Þorbjargar (Lillu) á Syðstu-Grund sem ættuð er frá Eyhildarholti í Hegranesi og faðir hans er Hinrik Már Jónsson, ættaður úr Þingeyjarsýslu, nánar tiltekið frá Laugum í Reykjardal. „Ég tók út grunnskólagönguna í Varmahlíðarskóla, fór að henni lokinni í Menntaskólann á Akureyri en var of mikill Skagfirðingur í mér þannig að ég söðlaði um eftir eina önn og fór í Fjölbrautarskóla Norðurlands Vestra hér á króknum þar sem að ég útskrifaðist með stúdentspróf vorið 2020.“

Sæþór hefur alla sína tíð búið á Syðstu-Grund en haustið 2018 eignaðist hann kærustu og fór því að vera með annan fótinn á Sauðárkróki og hinn á Syðstu-Grund sem fyrr. „Kærasta mín heitir Karen Lind Skúladóttir og er dóttir þeirra Lilju Magneu Jónsdóttur frá Sleitustöðum og Skúla Bragasonar frá Hólmagrundinni. Fyrir tæplega ári síðan varð Karen Lind ólétt af okkar fyrsta barni og flutti ég mig því alfarið yfir á Sauðárkrók og bý í dag með henni í Víðihlíðinni ásamt foreldrum hennar og systkinum. Þann 19. nóvember fæddi Karen síðan dóttur okkar, Sölku Sæþórsdóttur, og hef því síðastliðna mánuði verið vakinn og sofinn yfir litlu dóttur okkar sem virðist ætla verða föðurbetrungur á öllum sviðum. Samhliða föðurhlutverkinu hóf ég einnig diplómunám í viðburðarstjórnun við Háskólann á Hólum og mun ég koma til með að útskrifast þaðan í haust. Einnig hef verið að nota minn frítíma í það að hitta félaga mína í Danssveit Dósa, sem er hljómsveit sem við stofnuðum fyrir ári síðan og við höfum verið að æfa annað slagið ýmis ballprógröm sem og okkar eigin lög, en við gáfum út okkar fyrsta lag í febrúar sem ber nafnið Dúddírarirey og má finna á öllum helstu streymisveitum á netinu.“

Hver helstu áhugamálin séu segir Sæþórs það alltaf hafa verið íþróttir, þá helst fótbolti, tónlist og hestar. „Á mínum yngri árum var ég virkur í frjálsum íþróttum og keppti á flestum mótum sem í boði voru þangað til ég var 13 ára. Þá fór ég að einbeita mér meira að því að spila fótbolta með Tindastóli og spilaði fótbolta þangað til ég kláraði 3. flokk. Á unga aldri greindist ég með liðagigt sem gerði íþróttaiðkunina mína heldur erfiðari en ég hefði kosið og því ákvað ég að láta gott heita og sökkti mér í það að spila tónlist, og jú skemmta mér aðeins enda á þeim aldri. Árið 2018 fór ég að trúbba hér og þar í Skagafirði og var meira að segja farinn að koma fram aðeins í Húnavatnssýslunni, sem ég hafði gaman af. Í Fjölbrautaskólanum á Króknum spilaði ég mikið með nokkrum góðum drengjum og síðan þegar ég lauk náminu þar átti ég erfitt með að kveðja þann félagsskap og stofnaði því hljómsveit ásamt Alexi Má, Arnari Frey, Eysteini Ívari og Jóhanni Daða; Danssveit Dósa.“

Hvað á að gera í framtíðinni?
„Í framtíðinni ætla ég að halda áfram þeirri vegferð sem ég hef reynt að vera á, en það er að vera besta útgáfan af sjálfum mér. Ég stefni á að vera góður faðir, góður kærasti og halda áfram að gera þá hluti sem veita mér ánægju en þeir eru að spila góða tónlist fyrir mig og þá sem að nenna að hlusta á mig. Einnig stefni ég á að mennta mig enn frekar, en ég er ekki ennþá búinn að finna mína hillu.“

Sæþór segist vera til í að sjá aðeins minni neikvæðni og aðeins meiri jákvæðni í samfélaginu í dag, sem hann telur öllum til bóta. „Við mættum gefa aðeins meira hól til þeirra sem standa sig vel en það er þó mikilvægt að veita taumhald ef maður er ósáttur með eitthvað, en gæta þess þó að vera sanngjarn, málefnalegur og heiðarlegur.“
Þeir sem eru með ábendingar eða annað geta sent honum línu á bladamadur@feykir.is eða slegið á þráðinn í síma 841 7475.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir