Reisa á nýjan gangnamannaskála við Gedduhöfða á Grímstunguheiði

Innskotsmyndin er úr greinargerð verkefnis við Gedduhöfða á Grímstunguheiði og sýnir svæðið sem áætlað er að reisa gangnamannaskála. Gulu hringirnir umlykja Galtarár- og Ströngukvíslarskála.
Innskotsmyndin er úr greinargerð verkefnis við Gedduhöfða á Grímstunguheiði og sýnir svæðið sem áætlað er að reisa gangnamannaskála. Gulu hringirnir umlykja Galtarár- og Ströngukvíslarskála.

Til stendur að reisa nýjan gangnamannaskála við Gedduhöfða á Grímstunguheiði allt að 500m2 með gistipláss fyrir 60 manns, 300m2 hesthús og aðrar byggingar um 200m2. Skálanum er fyrst og fremst ætlað að þjóna gangnamönnum en gæti nýst breiðari hópi svo sem ferðamönnum, eftir því sem fram kemur á heimasíðu Húnavatnshrepps.

Verkefnið krefst þess að aðalskipulagi Húnavatnshrepps verði breytt og hefur þegar verið auglýst en tillögurnar liggja frammi á skrifstofu Húnavatnshrepps að Húnavöllum og á skrifstofu skipulagsfulltrúa að Hnjúkabyggð 3 á Blönduósi til 4. júní nk. Þeir sem telja sig eiga hagsmuna að gæta eru hvattir til að gera athugasemdir fyrir áðurnefndan tíma og skila á skrifstofu skipulagsfulltrúa.

Í greinargerð verkefnisins kemur fram að nýi skálinn muni koma í stað tveggja eldri sem verið hafa í notkun um áratuga skeið en eru mjög illa farnir, Öldumóðuskála og Álkuskála og munu þeir verða lagðir niður í kjölfarið.

Markmið aðalskipulagsbreytingarinnar er að bæta aðstöðu og nýtingu svæðisins en nýr gagnamannaskáli mun þjóna gangnamönnum en gæti nýst breiðari hópi svo sem ferðamönnum, eins og fram kemur í greinargerðinni. Þar kemur ennfremur fram að skálinn tengist vel við núverandi vegakerfi og reiðleiðum og staðsetningin góð sé tekið tillit til staðsetningu annarra skálasvæða en Húnavatnshreppur og sveitarfélagið Skagafjörður eiga tvo gangnamannaskála skammt frá, Galtarárskála og Ströngukvíslarskála sem mikið eru notaði vegna hestaferða. Í dag er ekki mikil umferð ferðamanna um Grímstunguheiði og segir í greinargerðinni að þessi nýja skálabygging sé fyrst og fremst hugsuð til þess að koma í stað gömlu skálanna tveggja. Áætlaður heildarfjöldi þeirra sem gista í skálanum yfir árið er undir 500 manns.

Nánar má fræðast um verkefnið á heimasíðu Húnavatnshrepps.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir