Rafrænn háskóladagur aðra helgi
Allir háskólar landsins kynna námsframboð sitt á einum vettvangi á stafrænum háskóladegi sem haldinn verður 26. febrúar nk. kl. 12-15. Þá gefst áhugasömum tækifæri til að kynna sér allt háskólanám sem er í boði á landinu á einum vettvangi. Á vefsíðunni haskoladagurinn.is gefst áhugasömum tækifæri til að leita í öllum námsleiðum sem eru í boði í íslenskum háskólum.
„Nemendur, kennarar, náms- og starfsráðgjafar og starfsfólk allra háskóla landsins verða tilbúnir til að spjalla við gesti dagsins í netspjalli. Það verður hægt að komast í beint samband við fulltrúa frá öllum námsleiðum í grunnnámi háskólanna og um að gera að nýta tækifærið og spyrja um hvaðeina sem lítur að draumanáminu og eiga samtal um námsleiðirnar og háskólalífið,“ segir í tilkynningu skipuleggjenda Háskóladagsins.
Líkt og í fyrra var tekin sú ákvörðun að halda daginn með þessum hætti í ljósi ástandsins í samfélaginu. Með þessu móti er hægt að bjóða öllum áhugasömum í netspjall við starfsfólk háskólanna og tryggja aðgengi fyrir öll þau sem hafa áhuga á að kynna sér úrvalið hjá íslensku háskólunum.
„Við erum rosalega ánægð með virkni leitarvélarinnar á síðunni enda er þetta í fyrsta skiptið á Íslandi þar sem áhugasömum um háskólanám gefst tækifæri til að leita að námi í öllum háskólum landsins,“ segir Sigrún Einarsdóttir, verkefnastjóri Háskóladagsins.
Það er von skipuleggjenda Háskóladagsins að áhugasamir nýti sér tækifærið og skoði vandlega það flotta úrval námsleiða sem íslenskir háskólar hafa uppá að bjóða.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.