Ráðherra opnaði kortavefsjá sem sýnir skurðaþekju Íslands

Opnun upplýsingavefs um votlendi. F.v. Sigmundur Helgi Brink sérfræðingur og Þórunn W. Pétursdóttir frá Landgræðslunni, Guðmundur I. Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra, Árni Bragason landgræðslustjóri, Fanney Ósk Gísladóttir og Jón Guðmundsson frá Landbúnaðarháskóla Íslands. Mynd af stjornarradid.is.
Opnun upplýsingavefs um votlendi. F.v. Sigmundur Helgi Brink sérfræðingur og Þórunn W. Pétursdóttir frá Landgræðslunni, Guðmundur I. Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra, Árni Bragason landgræðslustjóri, Fanney Ósk Gísladóttir og Jón Guðmundsson frá Landbúnaðarháskóla Íslands. Mynd af stjornarradid.is.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, opnaði fyrir helgi nýjan  upplýsingavef Landgræðslunnar um votlendi og áhrif framræslu þess á lífríki og losun gróðurhúsalofttegunda. Á vefnum er einnig að finna nýja kortavefsjá sem sýnir legu skurða á landinu og byggir hún á upplýsingum frá Landbúnaðarháskóla Íslands.

Á vef stjórnarráðsins kemur fram að gert sé ráð fyrir því að 47% alls votlendis á Íslandi hafi verið raskað með framræslu, þar af allt að 70% votlendis á láglendi. Jafnframt segir að nákvæmar upplýsingar um skurðakerfi landsins, eins og þær sem settar eru fram í kortasjánni, séu grunnur þess að hægt er að velja og forgangsraða endurheimt votlendis, svo sem eftir legu svæða í landi, staðsetningu innan vatnasviða, loftslagsábata endurheimtar og mögulegum ávinningi þeirra fyrir lífríki.

„Kortavefsjáin er mikilvægt tól í aðgerðum í þágu bæði loftslags og líffræðilegrar fjölbreytni og samlegðarinnar þar á milli. Við höfum á undanförnum árum aukið fjármagn í rannsóknir á losun gróðurhúsalofttegunda frá votlendi og lagt áherslu á aðgerðir í þágu verndar og endurheimtar þess m.a. með sérstakri aðgerðaáætlun um verndun votlendis sem byggir á aðgerðaáætlun í loftslagsmálum til ársins 2030. Ég bind miklar vonir við að öll þessi tól séu gagnleg við að koma okkur hraðar að markmiðunum um að auka vernd og endurheimt votlendis á Íslandi,“ sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra við opnun kortavefsjárinnar.

Sjá nánar HÉR

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir