Plastlaus september 2020- Breytum til hins betra

Árvekniátakið Plastlaus september er nú í fullum gangi fjórða árið í röð. Vegna samkomutakmarkana hefur Plastlaus september einbeitt sér að því að miðla upplýsingum og hvatningu til fólks með rafrænum hætti og hefur það fengið afar góðar undirtektir, segir í tilkynningu samtakanna um Plastlausan september, en tekið er dæmi um veggspjaldið „30 leiðir til að minnka plastið“ sem hefur fengið góða dreifingu á samfélagsmiðlum.

„30 leiðir til að minnka plastið“ veggspjald á pólsku má finna HÉR, og þá ensku HÉR

„Í ár erum við sérlega stolt að segja frá því að við vinnum að því að þýða heimasíðuna okkar, plastlaus.is, á ensku og pólsku svo að sem flestir íbúar landsins geti tekið þátt í að minnka plastið. Gaman er að segja frá því að það eru ekki bara einstaklingar sem taka þátt með því að setja sér markmið heldur taka fjölmargar stofnanir og fyrirtæki þátt og nýta þannig mánuðinn til að stíga skref í rétta átt og vekja athygli á þeim fjölmörgu möguleikum sem er til staðar til að minnka plastið.

Skógræktin er gott dæmi um hvað stofnanir/fyrirtæki geta gert til að dreifa út boðskap plastlauss september.
Bláskelin var afhent í annað skiptið núna í september en það er viðurkenning Umhverfis- og auðlindaráðherra til fyrirtækis, stofnunar eða einstaklings fyrir framúrskarandi lausnir sem stuðla að minni plastnotkun og plastúrgangi í samfélaginu. Að þessu sinni hlaut Matarbúðin Nándin viðurkenninguna en um er að ræða fjölskyldufyrirtæki þar sem markmið fjölskyldunnar er að skapa sjálfbært matvælakerfi þar sem sett er upp hringrás fyrir gler, ásamt því að selja matvöru í niðurbrjótanlegum og moltuhæfum umbúðum. Í úrslitahóp dómnefndar komust þrír aðilar auk Matarbúðarinnar Nándarinnar, en þeir eru Bioplastic skin, Krónan og Plastplan.

Í lok mánaðar verður málþingið „Frá upphafi til enda- plastnotkun í íslenskri matvælaframleiðslu.“ Rætt verður um þær áskoranir sem framleiðendur, seljendur, neytendur og móttökuaðilar sorps standa frammi fyrir með að minnka plastið og hvaða tækifæri eru til staðar til að gera betur. 30. september kl. 17 í Veröld- hús Vigdísar - Auðarsalur.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir