Óréttlæti og framfarir
Í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur fyrir árið 2021 er að finna löngu tímabær tíðindi. Við breytingar á lögum um málefni raforku árin 2003 og 2005 voru m.a. gerðar grundvallarbreytingar á forsendum fyrir gjaldskrá á dreifingu raforku. Aðskilnaður orkusölu og flutnings var grundvallarmál þeirra breytinga. Ekki ætla ég frekar að fjalla hér um orkusöluna.
Á Íslandi starfa nokkrar dreifiveitur. Gjaldskrá þeirra er byggð á svonefndri tekjumarkaleið. Tekjumarkaleið inniheldur fjárfestingar, viðhald dreifikerfis, flutningstap á raforku og rekstur veitukerfis, svo aðeins nokkrir þættir séu nefndir. Gjaldskrár/tekjumörk þurfa veitufyrirtæki til að fá staðfest Orkustofnunar, sem hefur eftirlit með áformum veitufélaga. Það er ríkir því ekki frjáls verðlagning á flutningi rafmagns til heimila og fyrirtækja.
Við lagabreytingar var stigið það skref að aðskilja gjaldskrár þeirra veitufélaga sem þjóna bæði þéttbýlisstöðum og dreifbýli. Innbyggt er í löggjöfina að jafna skuli með sérstökum framlögum úr ríkissjóði gjaldskrár dýrustu þéttbýlisgjaldskrár og gjaldskrá dreifbýlis. Fyrstu árin var þessu markmiði laganna vel sinnt og jöfnun fjármögnuð. Við efnahagshrunið fyrir um 12 árum hætti verðmæti jöfnunarframlagsins að duga. Þannig að í dag dugar framlagið ekki nema fyrir um 50% af þörf fyrir jöfnunarframlag.
Nú má ræða í löngu máli um réttlæti þessarar aðgerðar. Langstærstu dreifiveiturnar sem þetta á við eru Rarik og Orkubú Vestfjarða. Við kerfisbreytinguna voru dreifiveitur á þéttbýlisstöðum almennt vel uppbyggðar. En mikið vantaði á dreifkerfi sveitanna. Lagning jarðstrengja og aðgengi að 3ja fasa rafmagni var af skornum skammti. Það var því ekki sanngjarnt hvernig þessi uppskipti lentu á herðum orkukaupenda í dreifbýlinu. Ekki aðeins að rekstur þeirra væri dýrari og töp á flutningi raforku þar meiri. En niðurstaðan er að fáir notendur í dreifbýlinu sátu uppi með kerfi sem vantaði mikla fjárfestingu og endurnýjun.
Það er einfaldlega þannig að fjárfesting umfram viðhald fer beint í gjaldskrá orkukaupenda. Allir sjá að mikil fjárfesting skapar enn hærri kostnað. Gleymum því ekki heldur að dreifiveitur hafa ekki velt öllum þeim heimildum sem þau hafa fengið viðurkennd samkvæmt tekjumörkum. Þau eiga inni heimildir, þannig að aukið framlag til jöfnunar má ekki hverfa í gjaldskrárhækkunum.
Alþingi ræðir nú fjárlagafrumvarp næsta árs. Þar er tillaga um hækkun um 730 milljónir til jöfnunarframlags. Auk þess eru þar veruleg framlög til uppbyggingar og lagningu jarðstrengja. Í fjármálaáætlun er ætlað að verja 500 milljónum á næstu árum. Það framlag tryggir mun rekstrarhæfara kerfi, nútímanlegra og stórbætt aðgengi að 3ja fasa rafmagni. Í raun er verið að flýta áætlunum um uppbyggingu til ársins 2024 sem annars var ætluð 2035. Framlagið tryggir að ekki þarf að velta þeim fjárfestingum út í gjaldskrá.
Það er því tvennt sem er að nást. Stórátak í jarðstrengjavæðingu og ekki síst að jafna flutningskostnað raforku. Það er mikil framför og nútímavæðing.
En hækkun framlags um 730 milljónir dugar þó ekki alla leið. Því mun ég leggja áherslu á í meðförum Alþingis á fjárlagafrumvarpinu og fjármálastefnu að ná fullri jöfnun. Það er ekki sjálfgefið og einfalt, en það er réttlátt og sanngjarnt.
Haraldur Benediktsson
1. þingmaður Norðvesturkjördæmis
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.