Opinn samráðsfundur í dag um málefni fatlaðs fólks

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumálaráðherra, verður með opinn samráðsfund á Sauðárkróki um málefni fatlaðs fólks í dag, föstudaginn 18. ágúst, á Gránu Bistro kl. 17:00. 

Fundurinn er hluti af á hringferð ráðherrans um landið vegna landsáætlunar í málefnum fatlaðs fólks. Hringferðin hefur verið í gangi frá því í vor og er Sauðárkrókur seinasti viðkomustaður Guðmundar en seinasti fundurinn verður þó rafrænn 29. ágúst kl. 17:00. 

Á vefsíðu ráðuneytisins kemur fram að fundirnir hafa verið vel sóttir og góðar umræðir spunnist. Málefni fatlaðs fólks koma okkur öllum við og fólk er hvatt til að mæta og taka þátt. Hér gefst einstakt tækifæri til að hafa bein áhrif á þróun þjónustu við fatlað fólks á Íslandi.

  • Skrá þátttöku
    Ef þörf er á táknmálstúlkun, rittúlkun eða annarri sérstakri aðstoð er mikilvægt að það komi fram við skráningu

Á fundunum er fjallað um helstu áherslur í þjónustu við fatlað fólk í nútíð og framtíð og hvernig staðið verður að innleiðingu þeirra. Samráðsfundirnir hafa þann tilgang að tryggja milliliðalaust samtal um það sem fólki er efst í huga þegar málefni fatlaðs fólks ber á góma.

Fundirnir fara þannig fram að ráðherra flytur opnunarávarp og kynnt eru nokkur þeirra verkefna sem tilheyra landsáætluninni. Fulltrúar heildarsamtaka fatlaðs fólks fjalla um sínar áherslur og framtíðarsýn og starf notendaráða er kynnt. Að lokum býður ráðherra til samtals við viðstadda um það sem þeim er efst í huga.

 

/SMH

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir