Öll orka Blönduvirkjunar tapast á ári hverju!
Um langt árabil hefur það verið baráttumál sveitarfélaga á Norðurlandi vestra að orka sem framleidd er í Blönduvirkjun nýtist til atvinnu- og verðmætasköpunar heima í héraði. Alþingi veitti því sjónarmiði heimamanna viðurkenningu með samþykkt þingsályktunar um átak stjórnvalda og sveitarfélaga í Austur-Húnavatnssýslu til atvinnuuppbyggingar árið 2014.
Í henni kemur fram áhersla á sköpun nýrra starfa á Norðurlandi vestra með nýtingu raforku sem framleidd er í Blönduvirkjun. Í sömu þingsályktunartillögu er jafnframt nefnd markaðssetning svæðisins sem iðnaðarkosts, svo sem fyrir gagnaver. Þessi vinna við markaðssetningu stendur nú yfir og eins og alkunna er hefur verið sett upp gagnaver á Blönduósi. Fleiri spennandi tækifæri eru til skoðunar í landshlutanum.
Ein af áskorununum í þessari vinnu er aðgengi að orku og hefur þurft að hafna tækifærum vegna þess. Það skýtur skökku við að vera með afkastamikla virkjun í bakgarðinum, sem aldrei hefur verið keyrð á fullum afköstum, en fá ekki orkuna sem þarf til að efla atvinnustarfsemi og auka hagvöxt á svæðinu. Því til viðbótar eru í nýtingarflokki rammaáætlunar nýir virkjunarkostir á vatnasvæði Blöndu sem eru tilbúnir til framkvæmdar en stranda á því að ekki er hægt að koma orkunni frá virkjuninni. Það má því segja að ekki fari saman hljóð og mynd, Alþingi ályktar um nýtingu orkunnar í heimabyggð, en ekki er hægt að flytja orkuna frá virkjuninni stuttar leiðir innan svæðis.
Unnið er að endurnýjun flutnings- og dreifikerfis raforku. Skv. áætlunum Landsnets mun sjá til sólu fyrir Norðurlands vestra eftir 10 ár hvað flutningskerfið varðar. Þó samtal sé í gangi um hraðari lausnir þá verður að segja hlutina eins og þeir eru – við getum ekki beðið í mörg á eftir úrbótum. Það er brýnt að halda áfram uppbyggingu, akkúrat núna þegar íbúum er að fjölga á svæðinu, húsbyggingar eru farnar af stað og fleiri jákvæð teikn eru uppi. Það er við slíkar aðstæður sem gott lag er til að laða fjárfestingar sem leiða til fjölgunar atvinnutækifæra inn í landshlutann. Því er afar brýnt að Blanda verði stækkuð og fundnar verði leiðir til að miðla orkunni innan svæðis.
Á dögunum birtist grein í Morgunblaðinu sem hafði yfirskriftina Aðeins 5% af raforkunni til heimilanna. Í henni er vísað til upplýsinga frá Orkustofnun um raforkunotkun árið 2020. Eins og yfirskrift greinarinnar gefur til kynna fer aðeins lítill hluti orkunnar til heimila. Það sem hins vegar vekur athygli er að orkutap vegna flutnings og úttektar frá vinnslufyrirtækjum nema sama magni og orkunotkun heimilanna á landinu eða 5%. Þessi 5% eru ríflega 1000 GWst, sem er nokkurn vegin uppsett afl Blönduvirkjunar. Það má skapa ansi mörg störf fyrir þá raforku.
Sú staðreynd að þetta mikla tap verður á flutningi orkunnar hlýtur að renna stoðum undir mikilvægi þess að orka sé notuð sem næst upprunastað til að við nýtum auðlindir okkar sem allra best. Líkt og hefur verið baráttumál á Norðurlandi vestra allt frá því að Blönduvirkjun var tekin í notkun. Þetta er jafnframt veigamikill þáttur í umræðu um yfirvofandi orkuskort vegna orkuskipta. Við munum þurfa að auka framleiðslugetu til að geta mætt þeirri orkuþörf en er ekki líka brýnt að við nýtum sem allra best þá orku sem við erum nú þegar að framleiða? Í heimabyggð!
Unnur Valborg Hilmarsdóttir, framkvæmdastjóri SSNV
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.