Og hvað á sveitarfélagið að heita?
Eins og alkunna er þá ákvöðu fjögur sveitarfélög á Norðurlandi vestra að sameinast í tvö í kosningum sem fram fóru 19. febrúar sl. Nú hafa sveitarfélögin sett saman undirbúningsnefndir en eitt mál er kannski eitthvað sem íbúar hafa almennt hvað mestan áhuga á. Nefnilega; hvað á nýja sveitarfélagið að heita? Söfnun hugmynda um nafn á sameinað sveitarfélag Blönduósbæjar og Húnavatnshrepps er hafin en lítil umræða hefur verið um nafn á nýtt sveitarfélag í Skagafirði og má kannski leiða líkum að því að það fái einfaldlega nafnið Skagafjörður.
Húnvetningar hafa tíma til 31. mars til að senda inn tillögur að nafni og er hugmyndasöfnunin öllum opin inni á BetraÍsland.is. Í frétt á vef Húnavatnshrepps segir m.a. að æskilegt sé að tillögur séu lagðar fram með stuttum skýringum. Þá gefst þátttakendum einnig tækifæri til að láta í ljós skoðanir sínar á tillögum annarra. Nánar má lesa um reglur verkefnisins hér >
Blönduós mun að sjálfsögðu áfram heita Blönduós þó sveitarfélagið fái nýtt nafn. Vinsælustu tillögurnar sem stendur eru Húnabyggð og Húnaþing en einnig hafa komið fram tillögur eins og Húnaþing Eystra, Húnaós, Húnafjarðarbyggð, Jörundarbyggð og Austurþing. Varðandi Austurþing er bent á að það geti verið gott að vera framarlega í stafrófinu og gott sé að ná rími við þing. Það er semsagt að mörgu að hyggja áður en nafn er valið.
Gert er ráð fyrir að samhliða sveitarstjórnarkosningum í maí fari fram skoðanakönnun um nafnið meðal íbúa og verða niðurstöðurnar leiðbeinandi fyrir nýja sveitarstjórn sem tekur endanlega ákvörðun.
Í Austur-Húnavatnssýslu standa því eftir þrjú sveitarfélag; þetta nýja, Skagaströnd og Skagabyggð. Í Skagafirði er nú búið að sameina öll sveitarfélög undir sama hattinn og liggur því væntanlega beint við að það fái nafnið Skagafjörður – eða hvað? „Það hefur engin formleg umræða farið fram,“ sagði Hrefna Jóhannesdóttir, oddviti í Akrahreppi, þegar Feykir spurði út í nafnamálið. „Mín tilfinning er þó sú að flestum þyki annað óhugsandi en að Skagafjörður komi við sögu með einum eða öðrum hætti.“
Undirbúningsnefnd hefur verið skipuð, í Svf. Skagafirði í síðustu viku og í Akrahreppi sl. mánudag, en hana skipa Gísli Sig, Jóhanna Ey, Sigfús Ingi fyrir hönd Svf. Skagafjarðar og Eyþór E, Drífa Árna og Hrefna fyrir hönd Akrahrepps. Stefnt er að fyrsta fundi á allra næstu dögum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.