Ný framtíðarsýn Háskólans á Hólum
Háskólinn á Hólum hefur nýlega lokið endurskoðun á framtíðarsýn skólans og mótað stefnu fyrir árin 2021-2025. Jafnframt hefur verið farið í umfangsmiklar greiningar á styrkleikum og tækifærum í akademísku starfi skólans í stofnunarúttekt á vegum gæðaráðs íslenskra háskóla og greint styrkleika og tækifæri í innra skipulagi skólans með aðstoð ráðgjafa á vegum Inventus og Birki ráðgjafar.
Fram kemur í fréttatilkynningu frá skólanum að hann sinni einstökum námsþáttum í háskólastarfi á Íslandi, þ.e. ferðamálafræði, fiskeldis- og fiskalíffræði og hestafræði og hefur skapað sér mikilvægan sess í íslensku háskólaumhverfi. Skólinn hafi eflst og dafnað á undanförnum árum og nú í haust mun verða boðið upp á meistaranám í hestafræðum í fyrsta sinn.
Í framtíðarsýn Háskólans á Hólum á að efla enn frekar tengsl við atvinnulífið, skapa sér stærri sess í alþjóðlegu háskólaumhverfi og efla þátttöku í nýsköpun, ásamt því að efla gæða- og þróunarstarf og stuðning við mannauðsmál.
Til að framfylgja þessari framtíðarsýn tekur gildi nýtt skipurit skólans þann 1. september næstkomandi, þar sem bæði eru komin ný leiðtogastörf og skerping á störfum stjórnenda og í stoðþjónustu.
„Endurskoðun skipurits háskólans samhliða innri og ytri rýni á þróun skólastarfsins er mikilvægt skref til þess að fylgja eftir metnaðarfullri stefnu háskólans til næstu ára,“ segir Erla Björk Örnólfsdóttir, rektor: „Háskólinn á Hólum er sérhæfður öflugur háskóli sem ætlar sér enn ríkara hlutverk á fræðasviðum sínum á næstu misserum.“
Fjórum úr starfsliði skólans var sagt upp í vikunni þar sem störf þeirra hafa verið lögð niður. Erla segir það tengjast endurskoðun á skipuriti sem felur í sér breytingar á störfum, starfslýsingu manna, nýjum starfsheitum og nýrri ábyrgð.
„Þetta snertir marga og er kannski fyrsta skrefið í þeirri vegferð að mæta stefnu skólans til næstu fimm ára,“ segir Erla. „Það verða til ný störf sem eru ótengd þessum störfum og það verða til störf sem tengjast þeim sem voru lögð niður en eru með allt aðrar hæfni- og ábyrgðarkröfur. Svo var skipuritið endurskoðað og þar fengu einhverjir breyttar starfslýsingar og breytta ábyrgð.
Erla segir að þegar þetta verði um garð gengið muni ársverkum væntanlega fjölga um einhver brot úr starfi. Hún segir að væntanlega megi sjá þrjú ný störf við skólann auglýst seinna í dag á Starfatorgi.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.