Nú fer sól að hækka á ný
Þar sem vetrarsólstöður voru í gær á norðurhveli jarðar þá tekur sól að hækka á lofti á ný sem er gott að heyra því óvenju dimmt hefur verið sl. vikur því lítið hefur verið af hvíta gullinu þennan veturinn fyrir utan nokkra daga.
Á vefnum Íslenskt almanak segir: „Sólstöður eða Sólhvörf er sú stund þegar sól fer lengst frá miðbaug himins til norðurs eða suðurs. Sólstöður eru tvisvar á ári og hérlendis eru sumarsólstöður á tímabilinu 20.-22. júní þegar sólargangurinn er lengstur og vetrarsólstöður 20.-23. desember þegar hann er stystur. Breytileiki dagsetninganna stafar fyrst og fremst af hlaupársdögum.“
Í töflu um sólargang á vef Veðurstofu Íslands má sjá að sólargangur er mislangur eftir stöðum. Þannig rís sól klukkan 11:22 og sest klukkan 15:32 í Reykjavík svo sólar nýtur þar í rúmar fjórar klukkustundir en í Grímsey rís sólin klukkan 12:03 og sest klukkan 14:18, rétt rúmum tveimur tímum síðar.
Á Hvammstanga er sólaruppkoma klukkan 11:43 og sólarlag klukkan 15:03, á Blönduósi er sólargangur frá klukkan 11:47 til 14:53 og á Sauðárkróki milli 11:46 og 14:48.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.