Nóvember verður þrælmildur :: Veðurspá Veðurklúbbsins á Dalbæ
Í gær, þriðjudaginn 3. nóvember, mættu 14 spámenn til fundar í Veðurklúbbinn á Dalbæ til að spjalla um veðrið framundan. Þrátt fyrir að hafa ekki sent frá sér veðurlýsingu fyrir október þá líst fundarmönnum bara vel á veðrið þann mánuð.
„Tunglið sem er ríkjandi kviknaði 16. október í vestri kl 19:31 en næsta tungl kviknar sunnudaginn 15. nóvember kl 15:07 í austri. Áttir koma til með að vera áfram breytilegar, mánuðurinn verður svipaður veðurfarslega og október. Nóvember verður þó aðeins umhleypingasamari en þó engin harka,“ segir í skeyti Veðurklúbbsins en hvað hitastig varðar segja spámenn mánuðinn verða bara þrælmildur.
Veðurvísa fylgir svo í lokin samkvæmt venju.
Í október hefst skólinn
að bjóða börnum heim.
Í nóvember er náttlangt
í norðurljósa geim.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.