Námskeið fyrir bændur og aðra áhugasama um matvælavinnslu
Farskólinn – miðstöð símenntunar á Norðurlandi vestra stendur fyrir námskeiðum fyrir bændur og aðra áhugasama um matvælavinnslu. Allt hráefni sem notað er á námskeiðunum er innifalið í verði þeirra. Þátttakendur taka afurðirnar með sér heim að námskeiði loknu. Námskeiðin eru styrkt og niðurgreidd af Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra og unnin í samvinnu við Vörusmiðjuna á Skagaströnd.
Halldór B. Gunnlaugsson, verkefnastjóri hjá Farskólanum, segir að þetta sé þriðja haustið í röð sem boðið er upp á þessi námskeið. Undirtektir hafi verið afar góðar og fólk víða af landinu sótt þau. „Að þessu sinni er blanda af eldri námskeiðum og nýjum sem við höfum merkt að þörf er á eða beðið hefur verið um. Námskeiðin voru fyrst hugsuð fyrir bændur, en það hefur sýnt sig að það er miklu stærri hópur en bændur sem hefur áhuga á þeim og það eru allir velkomnir á námskeiðin,“ segir Halldór. Hann tekur fram að sætafjöldi á hverju námskeiði sé mjög takmarkaður, eða við sex manns á flest námskeið og að án stuðnings SSNV væru námskeiðin svo kostnaðarsöm að illmögulegt væri að manna þau. „Skráningar fara vel af stað og viljum við hvetja fólk til að tryggja sér sæti hið fyrsta.“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.