Myndband af verminjum á Höfnum

Frá minjastaðnum. Mynd: Minjastofnun Íslands.
Frá minjastaðnum. Mynd: Minjastofnun Íslands.

Fyrr í sumar fundust merkilegar minjar í landi Hafna á Skaga sem taldar eru frá 10. öld. Þar var eitt sinn stór verstöð líklega frá landnámi og fram eftir öllum öldum og í gegnum tíðina hafa verið verbúðir á nokkrum stöðum eftir ströndinni í landi Hafna, m.a. við Rifsbúðir, Innri-Þrándarvík og á nesjunum beggja vegna Grútarvíkur og Sandvíkur.

Sjórinn hefur brotið mikið af landinu á þessum stað og valdið miklum skemmdum á þeim minjum sem þarna eru og núna í sumar kom gamall öskuhaugur í ljós sem stendur opinn. Í öskuhaugnum má greina gjóskulag frá árinu 1104 og eru mannvistarleifar bæði undir því og yfir sem og yfir öðru gjóskulagi sem er líklega frá 1300.

Minjastofnun greinir frá því að í byrjun júlí fóru starfsmenn stofnunarinnar á staðinn til að kanna þær minjar sem eru að rofna í sjó. Á Youtube-síðu Minjastofnunar hefur verið birt myndband þar sem sýnt er frá vettvangnum og Guðmundur St. Sigurðarson, minjavörður Norðulands vestra og verkefnastjóri strandminja, segir frá minjastaðnum og þeirri landbrotshættu sem vofir yfir strandminjum við landið allt.

/SMH

 

 

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir