Munu Erlendur, Freyja, Hörður og Ari Þór dúkka upp?
„Glæpakviss er fyrir alla þá sem hafa gaman af að lesa glæpasögur og hafa eitthvað fylgst með íslenskri glæpasagnaútgáfu. Svo er auðvitað ekki verra að hafa gaman af spurningakeppni,“ segir Fríða Eyjólfsdóttir hjá Héraðsbókasafni Skagfirðinga en hún og Siva Þormóðsdóttir hyggjast spyrja þátttakendur spjörunum úr í Glæpakvissi sem fram fer í Gránu á Sauðárkróki fimmtudaginn 5. september og hefst kl. 17:00. Feykir yfirheyrði Fríðu stuttlega um málið.
Tróna íslenskar glæpasögur á toppi vinsældalista Héraðsbókasafns Skagfirðinga? „Ég er nú ekki með útlánstölur alveg á hreinu en víst er að margar íslensku glæpasögurnar eru þar ofarlega á lista og ég tel nokkuð öruggt að glæpasögur vinsælustu höfundanna vermi efstu sætin.“
Liggur mikil vinna að baki þess að semja spurningar í Glæpakviss? „Nú verð ég víst að gera þá játningu að við komum hvergi nálægt því að semja spurningarnar þó vissulega hefði verið gaman að slá um sig með því. Við fáum þær sendar frá Hinu íslenska glæpafélagi sem stendur fyrir þessari keppni á landsvísu í tilefni 25 ára afmælis félagsins.“
Þarf fólk að koma vel undirbúið til leiks, lesa allan Arnald til upprifjunar svo dæmi sé tekið? „Eins og ég sagði áður þá komum við ekki nálægt því að semja spurningarnar og höfum ekki fengið þær í hendur enn svo ég get ekki gefið almennilegt svar við þessari spurningu. Ég tel þó að allir þeir sem eitthvað hafa lesið af bókum þessara helstu höfunda okkar eigi fullt erindi á Glæpakvissið.“
Eru Fríða og Siva miklir aðdáendur íslenskra glæpasagna? „Já, ég held það sé óhætt að segja að við séum aðdáendur íslenskra glæpasagna, þá kannski Siva enn frekar en ég þar sem ég les mun meira af þýddum glæpasögum. Þrátt fyrir að Sivu finnist Edda hennar Jónínu Leósdóttur langskemmtilegasti rannsakandinn, eru Napóleonsskjölin hans Arnaldar og Ég man þig eftir Yrsu mest spennandi glæpasögurnar. Ég sjálf á enga uppáhalds íslenska glæpasögu en ég held að af íslensku höfundunum sé Eva Björg Ægisdóttir í mestu eftirlæti.“
Man einhver hvað gerist í glæpasögum, er þetta ekki bara stundarfróun og mest allt gleymt þegar bókinni er lagt að loknum lestri? „Trúlega er það nú oft þannig en það er samt ótrúlegt hvað getur rifjast upp hjá lesendum þegar á þarf að halda.“
Hvernig væri týpísk spurning í Glæpakvissi? „Ég fer nú ekki að ljóstra því upp – enda veit ég það ekki enn!“ segir Fríða, sakleysið uppmálað, að lokum og nokkuð ljóst að yfirheyrslan nær ekki lengra að sinni enda neita yfirkvissarar sök – komu ekki nálægt því að semja spurningar Glæpakvissins.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.