Mótast mökunarköll landsela við Ísland af ógnum í umhverfi?
Landselsbrimlar við Íslandsstrendur virðast gefa frá sér lengri og lægri hljóð á fengitíma en landselir við Danmörku og Svíþjóð og það gæti markast að mögulegri ógn í umhverfi þeirra samkvæmt því sem fram kemur í niðurstöðum nýrrar rannsóknar vísindamanna við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Húsavík, Selasetur Íslands, Hafrannsóknastofnun, Syddansk Universitet og Árósaháskóla í Danmörku. Greint er frá niðurstöðunum í grein í nýjasta hefti vísindaritsins JASA Express Letters.
Á vef Háskóla Íslands er greint frá innihaldi rannsóknarinnar en þar segir að landselur séu algengasta selategundin við Ísland og önnur tveggja tegunda sem kæpa hér við land. Stærstu látur tegundarinnar eru á norðvesturhluta landsins, og má þá benda sérstaklega á Vatnsnesið, og á Suðurlandi en hana má þó finna allt í kringum landið. Tegundina er einnig að finna annars staðar við norðanvert Atlantshaf og norðarlega í Kyrrahafi svo dæmi séu tekin.
„Lítið er vitað um mökunarhegðun tegundarinnar þar sem mökun fer fram í sjó en þó er vitað að á fengitímanum nýtir tegundin mökunarköll sem talin eru koma fyrst og fremst frá brimlum. Markmið rannsóknarinnar var að bera saman mökunarköll landsela hér við land við köll landsela við Danmörku og Svíþjóð ásamt því hvort ógn sem stafaði frá öðrum rándýrum hefði áhrif á köllin,“ segir á HI.is en þar er hægt að finna nánari upplýsingar um greinina. Sjá HÉR
Rannsóknin byggist m.a. á meistaraverkefni Helen Rössler við líffræðideild Syddansk Universitet í Danmörku sem hún vann undir leiðsögn Marianne H. Rasmussen, forstöðumanns Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Húsavík, Magnus Wahlberg, lektors við Syddansk Universitet, og Söndru M. Granquist, atferlisvistfræðings við Hafrannsóknastofnun og deildarstjóra líffræðideildar Selaseturs Íslands á Hvammstanga.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.