Mikið að gera og viðtökurnar frábærar :: Harbour restaurant & bar á Skagaströnd
Í sumar opnaði á Skagaströnd huggulegur lítill veitingastaður Harbour restaurant & bar sem staðsettur er í gömlu iðnaðarhúsi á höfninni. Eigendur eru tvenn hjón sem ákváðu að bíða ekki eftir því að aðrir opnuðu slíkan stað á Skagaströnd, tóku málin í eigin hendur og létu drauminn rætast. Feykir hafði samband við eitt þeirra, Birnu Sveinsdóttur, og forvitnaðist lítillega um ævintýrið á bryggjunni.
Eigendurnir sem hér um ræðir eru systkinin Birna Sveinsdóttir og Stefán Sveinsson og makar þeirra, Slavko Velemir og Hafdís Ásgeirsdóttir, sem öll búa á Skagaströnd. „Ég og Stefán flytjum frá Flateyri til Skagastrandar árið 1974 og höfum búið þar síðan með nokkrum hléum. Hafdís er fædd og uppalin á Skagaströnd en Slavko er fæddur og uppalinn Bosníu-Herzegovinu en flytur til Skagastrandar 1987 til að starfa við plastbátasmíði,“ útskýrir Birna. „Við erum ekki alveg ókunn rekstri en við hjónin erum í ferðaþjónustu og rekum þvottahús þar sem við þvoum og leigjum út lín fyrir ferðaþjónustuaðila. Slavko er sjálfstætt starfandi verktaki og starfar við smíðar, plastbátaviðgerðir og fleira. Hafdís er hársnyrtir og hefur rekið Hárstofuna Vivu síðastliðin 20 ár og Stefán er með eigin útgerð og hefur starfað við smíðar og hellulagnir.“
Harbour restaurant opnaði 17. júní og segir Birna að vel hafi gengið og nánast uppbókað öll kvöld í sumar og í raun miklu meira að gera en þau þorðu að vona. Á heimasíðu staðarins kemur fram að eigendurnir hafi ákveðið að bíða ekki eftir að aðrir opnuðu stað á Skagaströnd og tekið málin í sínar eigin hendur. Birna segir hugmyndina hafa kviknað aðallega út frá því að enginn veitingastaður hafi verið á Skagaströnd og bætir við að það sé alveg nauðsynlegt að í hverju samfélagi sé veitingastaður þar sem íbúar og gestir bæjarins geti gert sér glaðan dag og notið góðs matar og drykkjar með fjölskyldu og vinum í notalegu umhverfi.
„Þegar við vorum búin að selja okkur hugmyndina um að húsnæðið að Hafnarlóð 7 væri fullkominn staður fyrir veitingastað þá var ekki aftur snúið. Við byrjuðum á því að kaupa húsnæðið, síðan fór dágóður tími í að fjármagna verkefnið en þegar það var í höfn þá hófumst við handa við uppbygginguna. Þetta ferli frá fyrstu hugmynd að opnun tók rúm tvö ár.“
Lambakótilettur af matseðli
Brjálað að gera
Birna segir eitt að kaupa húsnæði og taka í gegn og svo annað að reka veitingastað. „Það var auðvitað gríðarleg vinna að taka húsnæðið í gegn og innrétta en við vissum nokkurn veginn hvernig umgjörð við vildum hafa en við fengum til liðs við okkur Erlu Maríu Lárusdóttur, innanhússarkitekt, og við erum virkilega ánægð með útkomuna. Við höfum enga reynslu af kokkamennsku og veitingarekstri þannig að þessi partur hefur verið nokkuð snúinn en svo sem ekkert sem við höfum ekki getað leyst. Við sáum ekki fyrir okkur að við værum að vinna í sal eða eldhúsi heldur átti okkar hlutverk að vera skipuleggjendur og halda utan um reksturinn, „dúlla“ okkur við að þróa matseðilinn og fleira. En guð minn góður, við erum eiginlega alveg búin að vera á haus síðan við opnuðum,“ segir Birna en endalausar reddingar á hinum ýmsu hlutum auk þess að taka vaktir og aðstoða í eldhúsi hafa þau hlaupið í.
„Við höfum oft grínast með það að við værum eins og hauslausar hænur hlaupandi um, hringjandi í hvert annað, skutlast hingað og þangað að redda hinu og þessu. Við getum hlegið að þessu núna en í sannleika sagt þá var þetta alger örvænting á köflum í sumar.“
Gullstígvél
Alþjóðlegur bragur á bryggjunni
Birna segir heppnina hafa verið með þeim þegar hjá þeim sótti um vinnu ítalskur kokkur sem vildi svo skemmtilega til að vissi ekki að væri að sækja um starf úti á landi. „Henni fannst við vera ansi afskekkt á Íslandi en við náðum að telja henni trú um að það væri mjög gott að búa á Skagaströnd og hingað er hún komin og systir hennar líka sem aðstoðar í eldhúsinu. Við erum nokkuð alþjóðleg þegar kemur að starfsfólki en hjá okkur starfa Íslendingar, Ítalir, Króatar og Lithái.“
Matseðillinn hjá Harbour restaurant er ekki stór en samt fjölbreyttur og þar ættu allir að geta fengið eitthvað við sitt hæfi. Birna segir að fram að þessu hafi vinsælasti rétturinn verið fiskur og franskar og verður væntanlega gert ráð fyrir því að á matseðlinum næsta sumar verði meira af ferskum fiski.
Sitthvað verður gert til að brjóta upp hversdagsleikann í veitingabransanum þar sem jólin eru framundan en einnig var blásið til villibráðakvölds fyrir skömmu.
„Já, við vorum með villibráðarkvöld í október. Silli kokkur kom og galdraði fram girnilega villibráð eins og honum er einum lagið. Það var vel sótt og mikil stemning og gaman væri að endurtaka viðburðinn að ári. Þá verðum við með jólahlaðborð tvær helgar í nóvember sem Gunnar Sveinn Halldórsson matreiðslumaður sér um. Á matseðlinum má finna bæði nokkuð hefðbundna jólarétti ásamt spennandi nýjungum.“
Partýplattinn vinsæll fyrir tvo til að deila.
Hvað er ómissandi á jólunum?
„Það sem er ómissandi á jólunum er samveran. Við erum dugleg að koma saman fjölskyldan yfir hátíðirnar og það er ómetanlegt. Hver veit nema stórfjölskyldan komi saman á Harbour á aðfangadag í ár og haldi jól með alþjóðlegu ívafi,“ segir Birna sem í kjölfarið er rukkuð er um uppskrift að meðlæti til að deila með lesendum Feykis.
„Jólamatur hjá okkur fjölskyldunum er nokkuð hefðbundinn en við erum með hamborgarhrygg í aðalrétt og ómissandi meðlæti er karrí-eplasósa, gular baunir með smá mæjó og remolaðikryddi og „Waldorfsalat“ eða eiginlega rjóma ávaxtasalat sem inniheldur vínber, gul epli og þeyttan rjóma, og mikið af honum. Tengdabörnin hafa haft orð á því að það sé frekar skrítið að borða rjómasalat með hamborgarhryggnum en okkur finnst það algjörlega ómissandi. Ég ætla að deila með ykkur karrí-eplasósunni. En aðalmálið með hamborgarhryggnum er sósan hennar mömmu.“
Salurinn í jólabúningi
Karrí-eplasósa
Laukur og epli saxað smátt og brúnað létt í smjörlíki ásamt karríinu, hveiti bætt saman við. Þynnt út með soðinu. Rjóma bætt við í lokin og smakkað til með smá sykri, salti, sætu sinnepi og Season-all.
1 epli
1 laukur
25 gr smjörlíki
1-2 msk. hveiti
1-2 tsk. karrí
„Að lokum viljum við þakka þær frábæru viðtökur sem við höfum fengið frá ykkur kæru viðskiptavinir nær og fjær.“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.