Miðflokkurinn vill neyðaraðgerðir strax
Fjölmennur flokksráðsfundur Miðflokksins fór fram í gær á netinu og voru heilmargar ályktanir samþykktar en ljóst er að flokkurinn vill aðgerðir strax vegna aðsteðjandi vanda í þjóðfélaginu. Meðal þess sem Miðflokkurinn leggur til er að heimilum, sem orðið hafa fyrir tekjufalli, verði veitt skjól meðan náð er utan um vandann og lausnir fundnar, lækka staðgreiðslu skatta, tekjuskatt og útsvar í 24% til loka árs 2021 og greiðslur vaxta og verðbóta vegna fasteignalána atvinnulausra falli niður í allt að 18 mánuði.
Ályktanir flokksráðsfundar Miðflokksins 26. september 2020:
Flokksráðsfundur Miðflokksins, haldinn sem fjarfundur 26. september 2020, þakkar þingmönnum og sveitarstjórnarfulltrúum flokksins fyrir öflugt starf við þær óvenjulegu aðstæður sem skapast hafa í samfélaginu síðan í vetur vegna veirufaraldursins. Má þar m.a. nefna tillögur flokksins um aðgerðir til að koma til móts við þann bráðavanda sem steðjar að heimilum og fyrirtækjum landsins sem lagður var fram strax í apríl undir yfirskriftinni “Miðflokkurinn vill neyðaraðgerðir strax”.
Stefnumál flokksins standa óhögguð í öllum málaflokkum þar sem grunnstefið er að standa vörð um fullveldi þjóðarinnar, óskorað vald yfir auðlindum landsins, að búa öllum jöfn tækifæri og miða að því að allir íbúar landsins eigi kost á að nýta sér þá þjónustu sem ríkinu ber að veita.
Miðflokkurinn hvetur sóttvarnaryfirvöld og almannavarnir til skynsamlegra varna gegn Kórónuveirunni, en telur hinsvegar efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar langt frá því að vera ásættanlegar.
Þær aðstæður sem nú eru uppi kalla á hröð og fumlaus vinnubrögð með nýrri forgangsröðun til að verja störf, verja atvinnulífið sem er grunnur verðmætasköpunar og verja velferð og möguleika fólks til að lifa sem eðlilegustu lífi í landinu.
Miðflokkurinn telur nauðsynlegt að þegar í stað verði ráðist í almennari og einfaldari aðgerðir en þær sem ríkisstjórnin hefur beitt til að koma til móts við þann bráðavanda sem steðjar að heimilum og fyrirtækjum landsins.
Markmið aðgerðanna:
• Verja kjör og auka ráðstöfunartekjur
• Verja störf og auðvelda atvinnulífinu sókn á erfiðum tímum
• Gera ferðaþjónustufyrirtækjum kleift að leggjast í dvala
• Efla innlenda matvælaframleiðslu
• Skýra eignarhald ríkisins yfir auðlindum þjóðarinnar og tryggja áfram hagkvæma nýtingu
• Einfalda þarf ríkisrekstur og hagræða, en veita um leið meira fé til uppbyggingar innviða
Í ljósi þessa leggur Miðflokkurinn megináherslu á eftirfarandi þætti á þessum flokksráðsfundi:
1. Heimilum sem orðið hafa fyrir tekjufalli verði veitt skjól meðan náð er utan um vandann og lausnir fundnar
a. Lækka staðgreiðslu skatta, tekjuskatt og útsvar í 24% til loka árs 2021.
b. Greiðslur vaxta og verðbóta vegna fasteignalána atvinnulausra falli niður í allt að 18 mánuði.
c. Vísitöluhækkanir verði bannaðar tímabundið.
d. Afnema skal skerðingar á greiðslum til eldri borgara og lífeyrisþega.
2. Almennar lausnir fyrir atvinnulífið
a. Tryggingargjald verði fellt niður í 12 mánuði.
b. 24 mánaða vaxtaþak verði lögfest á fryst lán fyrirtækja sem orðið hafa fyrir verulegu tekjufalli, með hliðsjón af stýrivöxtum Seðlabankc. Greiðslum fasteignagjalda vegna atvinnuhúsnæðis verði frestað til september 2022 vaxtalaust. Sveitarfélögum verði bættur sá tekjumissir sem af því hlýst.
d. Rekstrarstyrkir verði greiddir til fyrirtækja sem orðið hafa fyrir verulegu tekjufalli vegna faraldursins til að viðhalda ráðningarsambandi og standa skil á föstum kostnaði.
e. Sérstök lán á stýrivöxtum (meginvöxtum) Seðlabanka verði veitt litlum fyrirtækjum og á landsbyggðinni verði þau veitt í gegnum Byggðastofnun til að styðja við áframhaldandi atvinnusköpun.
f. Launatengd gjöld verði lækkuð og kostnaði forsendubrests verði deilt milli fyrirækja, ríkis, sveitarfélaga, lánveitenda, lífeyrissjóða ofl.
3. Innlend matvælaframleiðsla verði stórefld
Stórefla þarf landbúnað og innlenda matvælaframleiðslu. Hér liggur eitt af stærstu tækifærum þjóðarinnar til framtíðar þar sem heilnæmi matvæla, fæðuöryggi, matvælaöryggi og vistvæn orka á góðu verði munu spila lykilhlutverk.
a. Auka þarf verulega stuðning við landbúnaðinn og gera rekstrarumhverfi matvælavinnslunnar hagkvæmara.
b. Stöðva þegar í stað innflutning á ófrosnu kjöti og eggjum.
c. Raforkuverð verði jafnað að fullu á milli dreifbýlis- og þéttbýlis.
4. Tryggja þarf óskorað vald yfir auðlindum þjóðarinnar
a. Hafna frekari innleiðingu á orkustefnu ESB.
b. Afturkalla samþykkt um 3. orkupakkann.
c. Koma í veg fyrir framsal ríkisvalds til erlendra stofnana.
5. Einfalda þarf ríkisrekstur og hagræða en um leið verði meira fé varið til uppbyggingar innviða
Ár eftir ár vex umgjörð stjórnkerfisins með auknum álögum á skattgreiðendur. Miðflokkurinn vill að farið verði í róttæka vinnu við að draga úr íþyngjandi regluverki og draga saman báknið. Þannig verði íbúum og fyrirtækjum landsins gert auðveldara og ódýrara að lifa lífi sínu og skapa ný verðmæti. Um leið verði meira fé varið til uppbyggingar innviða samfélagsins.
a. Hafinn verði undirbúningur að framtíðaruppbyggingu nýs þjóðarsjúkrahúss á Keldum í Reykjavík. Núverandi spítali við Hringbraut verði héraðssjúkrahús.
b. Sjúkrahúsin á landsbyggðinni verði styrkt til þess að veita sérfræðiþjónustu sem hefur glatast á mörgum stöðum.
c. Sálfræði- og geðheilbrigðisþjónusta verði aðgengileg um allt land.
d. Ráðist verði í stórátak í samgöngumálum sem eykur öryggi og styrkir byggð og atvinnu. Miðflokkurinn hafnar stórútgjöldum til borgarlínu en leggur áherslu á greiðar stofnbrautir á höfuðborgarsvæðinu með mislægum gatnamótum, bættri ljósastýringu og lagningu Sundabrautar.
e. Fundurinn ítrekar að Reykjavíkurflugvöllur verði áfram í Vatnsmýrinni sem aðal samgönguæð innanlandsflugs, sjúkraflugs og almannaflugs sem tenging landsbyggðar og höfuðborgar.
f. Standa þarf vörð um möguleika ungmenna til fjölbreyttrar menntunar.
Samþykkt á Flokksráðsfundi Miðflokksins 26.september 2020
Ræðu formannsins, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar á Flokksráðsfundi Miðflokksins 26. september, 2020 má finna HÉR.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.