Metfjöldi smitaðra
„Enn einn daginn heldur Covid smitum áfram að fjölga hér í umdæminu. Miklar breytingar verða á föstudaginn eins og flestum er líklega kunnugt um. Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að frá og með föstudeginum 25. febrúar verði öllum opinberum sóttvarnaaðgerðum vegna heimsfaraldurs COVID-19 aflétt, jafnt innanlands og á landamærunum,“ segir í tilkynningu frá aðgerðastjórn almannavarna á Norðurlandi vestra í gærkvöldi.
Eins og fram hefur komið í fréttum falla brott allar reglur um takmarkanir á samkomum og skólahaldi og einnig krafa um einangrun þeirra sem sýkjast af COVID-19. Heilbrigðisráðherra kynnti ákvörðun sína á fundi ríkisstjórnar í gær sem byggist á tillögum sóttvarnalæknis til ráðherra um afléttingar.
„Engu að síður eru íbúar beðnir um að fara varlega, gæta að persónubundnum sóttvörnum og halda sig til hlés finni það fyrir einkennum. Og síðast en ekki síst gleymum ekki viðkvæmu hópunum okkar,“ segir í tilkynningu aðgerðastjórnarinnar.
„Eins og áður hefur komið fram í fréttum, þá var hámarks PCR-greiningargetu vegna COVID-19 náð fyrir nokkru síðan. Þetta hefur leitt til þess að bið eftir niðurstöðu úr PCR-greiningum er orðin allt að 2-3 sólarhringar sem er óásættanlegt,“ segir sóttvarnalæknir á Covid.is en til að bregðast við því verður ekki lengur í boði fyrir almenning, með einkenni sem benda til smits af völdum COVID-19, að panta í PCR sýnatöku heldur verða hraðgreiningapróf einungis í boði. Jákvætt hraðgreiningapróf mun því nægja til greiningar á COVID-19 og ekki verður þörf á staðfestingu ágreiningunni með PCR-prófi, eftir því sem fram kemur á covid.is.
Tafla frá aðgerðastjórn
almannavarna á Norðurlandi
vestra frá þriðjudegi.
Greindum Covid smitum á Norðurlandi vestra tvöfölduðust á tveimur sólarhringum, voru 233 á mánudag en komin upp í 479 í gær. Á þriðjudaginn voru þau 422 alls. Flest smitin eru sem fyrr á Sauðárkróki 201 en hástökkvarinn er Blönduós sem fór úr 14 manns í 102 smitaða á þessum tveimur sólarhringum. Þá hafa einnig greinst smit í öllum póstnúmerum umdæmisins en einn er í einangrun í Hrútafirðinum í póstnúmerinu 500 en það hefur lengi verið frítt við smit.
Eins og áður segir verða PCR sýnatökur ekki í boði eftir daginn í dag eins og áður og er þeim sem nú greinast með COVID-19 á hraðgreiningaprófi ekki skylt að dvelja í einangrun. Engu að síður eru tilmæli sóttvarnayfirvalda þau, að fólk dvelji í einangrun í fimm daga.
„Ef fólk er einkennalítið eða einkennalaust þá getur það mætt til vinnu en fari þá eftir leiðbeiningum um smitgát í 5 daga,“ segir á Covid.is, Sjá nánar HÉR
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.