Merkilegur fornleifafundur á Þingeyrum
Í síðustu viku greindi fréttastofa RÚV frá því að fornleifafræðingar, sem vinna að rannsóknum á Þingeyraklaustri, hafi fundið þar merkilega gröf sem talin er tilheyra Jóni Þorleifssyni, klausturhaldara á Þingeyrum en hann lést árið 1683. Í gröfinni fundust m.a. gullhringur og veglegt höfuðfat.
Gullhringurinn og höfuðfatið Myndir: Þingeyrar Fornleifarannsókn
„Það er ekki oft sem það finnst gripur úr gulli eða hringar eins og þessi, og eins þetta höfuðfat er mjög merkilegt þannig að ég tel þetta vera með merkilegri fundum síðari ára í fornleifafræðinni,“ segir Steinunn Kristjánsdóttir, prófessor í fornleifafræði við Háskóla Íslands, í viðtali við Óðinn Svan Óðinsson, fréttaritara RÚV.
Rannsóknir á Þingeyraklaustri hófust árið 2014 með það að leiðarljósi að komast að því hvar klaustrið stóð. Steinunn telur að búið sé að finna klaustrið og ýtir þessi merkilegi fundur undir þá kenningu.
Ástæðan fyrir því að maðurinn í gröfinn sé talinn vera Jón Þorleifsson er sú að munirnir sem fundust á honum eru taldir gefa vísbendingu um það.
„Þegar gröfin var opnuð, þá kom í ljós að þessi einstaklingur sem þarna var grafin bar hring úr gulli, þetta er svona innsiglishringur sem er með ákveðnu tákni og það leiddi okkur á sporið um hver þetta gat verið. Hann var líka með forláta húfu á höfði,“ segir Steinunn.
Jón Þorleifsson var einungis 26 ára þegar hann dó og ekki er vitað hvað dró hann til dauða en Steinunn vonar að rannsóknir á beinum hans muni leiða það í ljós.
Haldið er úti Instagram-síðu undir heitinu Þingeyrar fornleifarannsókn sem gaman er að fylgjast með og má þar sjá gripina sem búið er að finna.
/SMH
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.