Meira en lífsstíll
Það er deginum ljósara að orðaval landbúnaðarráðherra, um að sauðfjárrækt væri lífsstíll þegar rætt var um vanda greinarinnar, var særandi og kom flatt upp á bændur og fleiri. Að neita fyrir það gerir lítið annað en ýfa fólk enn meir en nú er orðið. Ég harma það sérstaklega að sjá á eftir góðu fólki úr Sjálfstæðisflokknum vegna þessa. Sauðfjárrækt hefur verið hluti af samfélagsgerð okkar um aldir og -ásamt fiskinum- jafnvel haldið í okkur lífinu á erfiðustu tímum sögunnar. En tímarnir breytast og mennirnir með og undanfarin ár hefur neysla lambakjöts sannanlega dregist saman með tilheyrandi tekjuskerðingu hjá bændum.
Nú hafa fjögur sveitarfélög í Norðvesturkjördæmi lýst yfir þungum áhyggjum af lágu afurðaverði til sauðfjárbænda þar sem um fimmtungur af allri framleiðslu kindakjöts í landinu fer fram. Þeim áhyggjum deili ég með þeim. Ekki má gleyma því að sauðfjárræktin stendur ekki ein og sér. Hún er lykilatvinnugrein fyrir margvíslega þjónustu og tengda starfsemi og er nær eina undirstaða dreifðrar byggðar víða um land. Ljóst er að vandi sauðfjárbænda er vandi stjórnvalda og við honum þarf að bregðast á þann hátt að rekstrargrundvöllur sé fyrir framleiðslunni á þeim svæðum sem helst henta.
Stjórnvöld gerðu það að stefnu sinni árið 2017 að draga úr sauðfjárrækt um 20%. Fall í afurðaverði og erfið staða á erlendum mörkuðum er þar helst um að kenna og ljóst að framleiðslan hefur verið umfram eftirspurn. Þá var árið 2016 mörkuð sú ranga leið að draga úr vægi greiðslumarks í sauðfjárrækt. Við endurskoðun samnings um starfsskilyrði sauðfjárræktar á síðasta ári var hins vegar niðurtröppun greiðslumarksins stöðvuð. Að mínu mati þarf að ganga lengra og auka aftur vægi greiðslumarks svo þeir bændur sem sannanlega höfðu verið að fjárfesta í greininni og sinni framleiðslu standi á traustari grunni. Ríkisstyrkir í landbúnaði verða að vera framleiðslutengdir án þess þó að skapa hvata til umframframleiðslu. Þau sannindi eru núna að bíta. En engar töfralausnir eru þetta og fleira verður að koma til.
Stjórnvöld verða enn fremur að horfast í augu við þá staðreynd að þær sveitir Íslands þar sem byggðin er veikust byggja fyrst og fremst á sauðfjárrækt. Það er í sauðfjárrækt sem ræturnar standa dýpst og er sú grunneining sem þarf helst að styrkja. Ef grunnurinn er ekki til staðar er engu öðru til að dreifa eins og sakir standa. Ríkisstuðningur við landbúnað er að stórum hluta byggðaaðgerð og þá þurfa stjórnvöld líka að hafa til þess þor að fylgja því eftir með þeim hætti.
Lausnir sauðfjárræktarinnar eru á endanum jafn margþætta eins og vandinn er margslunginn. Markaðstækifærin eru mörg ónýtt, gera þarf úrbætur á starfs- og rekstrarháttum afurðarstöðva og auka verður frelsi bænda til selja neytendum afurðir sem þeir vilja kaupa. Allt eru þetta atriði sem hægt er að hrinda í framkvæmd. Mannanna verkum er nefnilega hægt að breyta og ég efa það ekki að landbúnaðarráðherra og ríkisstjórnin öll hafi bæði viljann og getuna til að láta betra af sér leiða í þessum efnum. Ákallið um það heyrist mjög vel úr öllum sveitum landsins.
Teitur Björn Einarsson
Höfundur er lögmaður og varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.