Magnús Barðdal nýr verkefnastjóri fjárfestinga hjá SSNV
Á heimasíðu Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra (SSNV) er greint frá því að Magnús Barðdal hafi verið ráðinn í starf verkefnisstjóra fjárfestinga hjá samtökunum.
Um er að ræða tímabundið verkefni sem skilgreint var sem áhersluverkefni áranna 2020-2021 en hefur nú verið framlengt til hausts 2022. Markmið verkefnisins er að auka fjárfestingar í landshlutanum með það fyrir augum að fjölga atvinnutækifærum. Verkefnið er stutt af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu með viðaukasamningi sem undirritaður var í september 2019, sóknaráætlun landshlutans sem og sveitarfélögunum á Norðurlandi vestra.
Magnús hefur lokið ML prófi í lögfræði frá Háskólanum á Bifröst og hefur víðtæka reynslu úr atvinnulífinu. Nú síðast sem útibússtjóri Arion banka á Sauðárkróki og áður sem lögfræðingur hjá Íbúðalánasjóði. Hann hefur því góða þekkingu á fjármálum og fjárfestingum sem og atvinnulífi og starfsumhverfi á Norðurlandi vestra. ,,Ég er mjög spenntur fyrir að takast á við þetta krefjandi verkefni enda brenn ég fyrir uppbyggingu og eflingu landshlutans” segir Magnús.
/SSNV
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.