Ljós og hiti á landsbyggðinni

Það kostar margfalt meira að kveikja ljós í eldhúsinu hjá vini mínum sem býr á landsbyggðinni en heima á Akranesi.  Er á þessu einhver skynsamleg og sanngjörn skýring? Nei, ekki þegar um er að ræða sjálfsagða grunnþörf hvers heimilis í nútímasamfélagi. 

Ójöfnuður vex
Lög um jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku tóku gildi árið 2004 og áttu að jafna í stórum dráttum verð á raforku til notendanna sem búa vítt og breitt um landið. 

Þetta markmið um jöfnuð á flutnings- og dreifikostnaði hefur engan veginn náðst. Síðasta áratug hefur bilið þvert á móti stöðugt aukist og mismunað íbúum landsbyggðar með stórfelldum hætti. Gjaldskrár í dreifbýli hafa hækkað ört miðað við hækkanir í þéttbýli sem leitt hefur til þess að bilið milli dýrasta þéttbýlis og meðalverða í dreifbýli hefur aukist háskalega og kostnaðarmunur nemur nú jafnvel allt að 60%.

Óvæntur glaðningur?
Í þingmálaskrá sem lögð var fram við setningu Alþingis 1. október s.l. kemur fram að ferðamála- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hyggist beita sér fyrir lagabreytingu sem hafi í för með sér aukningu á framlögum til jöfnunar á dreifikostnaði rafmagns. Ekki er hægt að skilja orðalag á annan veg en að þessi lagfæring muni aðeins bæta hag landsbyggðarfólks um13% sem þýðir að misræmið er enn himinhrópandi.

Ein gjaldskrá
Ein samræmd gjaldskrá fyrir alla landsmenn er eðlileg krafa fyrir íbúa landsbyggðar sem á sviði orkumála standa mjög höllum fæti á köldum svæðum. Auk þess búa þeir við tíðari rafmagnstruflanir en flestir þéttbýlisstaðir – og hvað segir þessi hrópandi mismunun um nýsköpunarmöguleika á landsbyggðinni?

Sameiginleg auðlind
Í ljósi þess að uppspretta raforku er vítt og breitt um landið er sjálfsögð krafa að þessi sameiginlega auðlind nýtist landsmönnum á samræmdum kostnaðarlegum forsendum, hvar sem þeir eru í sveit settir.

Það eru yfirlýst markmið stjórnvalda að jafna eins og kostur er búsetuskilyrði um land allt en hafa hingað til reynst haldlítil orð. Með samræmingu raforkuverðs yrði hins vegar stigið raunverulegt skref í þá átt, bæði hvað varðar einstaklinga, fjölskyldur og atvinnustarfsemi sem býr að flestu leyti við erfiðari skilyrði en á þéttbýlli svæðum.

„Langlínurafmagn“
Margir muna enn eftir þeim tímum þegar mikill ójöfnuður ríkti varðandi símanotkun og skrefatalningu þegar langlínusamtöl giltu fyrir landsbyggðina.  Þetta var afnumið með lögum á Alþingi árið 1996.  Eftir það hefur gjald fyrir talsímaþjónustu verið óháð búsetu og innheimta sérstaks álags vegna langlínusímtala óheimil.  Þannig á þetta líka að vera varðandi umgjörð raforkumála og það eru nokkrar leiðir að þessu marki.  Samfylkingin mun halda þeim á lofti í vetur.  

Yfirlýsing ráðherra
Þau tíðindi bárust frá ráðherra nú fyrir helgi, að stóraukinna fjárframlaga væri að vænta í þennan málaflokk til þess að jafna dreifingarkostnað raforku á landsbyggðinni, langt umfram það sem kemur fram í boðuðu frumvarpi. Ástæða er til að taka þessum fregnum fagnandi en samt með nokkrum fyrirvara og hvetja íbúa á viðkomandi svæðum til að vakta í hve miklum mæli þetta gengur eftir.  Ef loforðin standa, þá er hér á ferðinni löngu tímabær réttarbót í þágu landsbyggðar þótt fullum jöfnuði sé alls ekki náð. Það er eftir sem áður hin sjálfsagða krafa.

Sömu lífskjör
Það er sjálfsögð réttlætiskrafa að lífskjör þjóðarinnar séu sem jöfnust óháð búsetu. Í þeim tilgangi þarf að tryggja eins og kostur er að algengustu lífsnauðsynjar og almenn þjónusta standi til boða á sama verði hvar sem er á landinu. Raforka á ekki að vera þar undanskilin.

Guðjón S. Brjánsson
alþingismaður

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir