Listi VG samþykktur í Norðvesturkjördæmi
Bjarni Jónsson, fiskifræðingur og sveitarstjórnarmaður, leiðir lista Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs í Norðvesturkjördæmi, en listinn var samþykktur á fjölsóttum fundi á Hótel Laugabakka í Miðfirði í gær. Bjarni sagði meðal annars í ræðu á fundinum að til framtíðar lægju miklir möguleikar í sterkara VG á sveitarstjórnarstiginu og samvinnu landsmálanna og sveitarstjórnamálanna.
Bjarni, sem er nýr oddviti VG í kjördæminu þakkaði ráðherrum VG, fyrir mikla vinnu og framsækni sem hefði leitt til vitundarvakningar í samfélaginu þótt ekki hefðu öll mál náðst í höfn á kjörtímabilinu.
Lilja Rafney Magnúsdóttir, alþingismaður er í öðru sæti listans. Í ræðu sinni sagði hún að með gleði og samvinnu er allt hægt, og að hún muni láta til sín taka í málefnum launafólks, sjómanna og byggðanna og fyrir réttlátara samfélagi með umhverfismál að leiðarljósi. Hún sagðist fyllast andagift yfir fjölbreytileikanum á listanum og þeirri góðu stemningu sem ríkti. Sigríður Gísladóttir, dýralæknir á Ísafirði er í þriðja sæti og Þóra Margrét Lúthersdóttir, bóndi í því fjórða.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, varaformaður VG og sérstakur gestur fundarins, ræddi kosningabaráttuna framundan og hvatti frambjóðendur og almenna félagsmenn til dáða. Nú verði áfram byggt á þeim góða grunni sem lagður hafi verið í ríkisstjórn, það verði byggt á samþykktum síðasta landsfundar, og horft fram á veginn og talað við fólkið í landinu.
- Bjarni Jónsson, fiskifræðingur og sveitarstjórnarmaður, Hólum í Hjaltadal
- Lilja Rafney Magnúsdóttir, alþingismaður, Suðureyri
- Sigríður Gísladóttir, dýralæknir, Ísafirði
- Þóra Margrét Lúthersdóttir, sauðfjár- og skógarbóndi, Forsæludal í Vatnsdal
- Lárus Ástmar Hannesson, kennari og bæjarfulltrúi, Stykkishólmi
- Heiðar Mar Björnsson, kvikmyndagerðarmaður, Akranesi
- Halldóra Lóa Þorvaldsdóttir, kennslustjóri og formaður byggðaráðs, Reykholti
- Ólafur Halldórsson, nemi og starfsmaður í aðhlynningu, Skagaströnd
- Dagrún Ósk Jónsdóttir, þjóðfræðingur, Strandabyggð
- María Hildur Maack, umhverfisstjóri, Reykhólum
- Auður Björk Birgisdóttir, háriðnmeistari og bóndi, Hofsósi
- Einar Helgason, smábátasjómaður og skipstjóri, Patreksfirði
- Brynja Þorsteinsdóttir, leiðbeinandi á leikskóla og varam. í sveitarstjórn, Borgarnesi
- Rún Halldórsdóttir, læknir, Akranesi
- Valdimar Guðmannsson, iðnverkamaður og eldri borgari, Blönduósi
- Guðbrandur Brynjúlfsson, bóndi, Brúarlandi á Mýrum.
/Fréttatilkynning
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.