Vísnakeppni Safnahúss Skagfirðinga 2021 - Framlengd skil til 21. apríl.

Frá setningu Sæluviku 2018: Mynd: PF
Frá setningu Sæluviku 2018: Mynd: PF

Það er nú svo að þegar þessi þáttur kemur fyrir sjónir almennings er, þrátt fyrir hertar aðgerðir ríkisins í sóttvörnum, ekki búið að fresta Sæluviku líkt og gert var fyrir ári. Fyrst svo er freistumst við til að kasta fram fyrripörtum og gefum almenningi kost á að taka þátt í vísnakeppni Safnahúss Skagfirðinga.

Samkvæmt lauslegri talningu er líklegast komið að 45. keppninni en henni var komið á árið 1976 og hefur farið fram öll árin, utan 2020 vegna Covid áhrifa. Líkt og segir í einum fyrripartinum, sem einnig var gerður að fyrirsögn, hafa sjálfsagt margir viljað gefa liðnu ári löngutöng og jafnvel þessu ári líka en munum að brátt verður þetta leiðindaástand yfirstaðið.

Reglur vísnakeppninnar eru sem fyrr einfaldar og góðar; annars vegar að botna fyrirfram gefna fyrriparta og eða semja vísu um ákveðið málefni. Ekki er nauðsynlegt að botna allt og einnig er í lagi að senda bara inn vísu.

Gos, gös, Covidáhrif, kaup og kjör og kosningar eru viðfangsefni botnara að þessu sinni og að sjálfsögðu vorið enda stutt í betri tíð. Fyrripartarnir hljóða svo:

Í fjölmiðlunum færir menn
fræða okkur um gösin.

Minni vinnu, meira kaup
mun þá auður safnast.

Hvað ætlarðu að kjósa í haust?
Hverju viltu hafna?

Liðnu ári löngutöng
langar mig að senda

Flesta daga ferðast ég
um fermetrana heima.

Senn mun blíð og betri tíð
bara prýða fjörðinn.

Umsjónarmaður vísnakeppninnar langar til að sjá hvernig hagyrðingar ramma inn Ísland og þeirra upplifun á stöðunni í dag, sl. mánuði eða jafnvel hvernig þeir telja hana þróast næstu mánuði. Þó Covid-19 hafi verið alls ráðandi má alveg hugsa út fyrir þann ramma.

Veitt verða tvenn peningaverðlaun, annars vegar fyrir bestu vísuna og hins vegar fyrir besta botninn. Ekki er skilyrði að allir fyrripartar séu botnaðir og einnig er leyfilegt að senda einungis vísu.

Vísur og botnar verða að hafa borist Safnahúsi Skagfirðinga, Faxatorgi 550 Sauðárkróki í síðasta lagi miðvikudaginn 21. apríl nk. Nauðsynlegt er að vísurnar séu merktar dunefni, en rétt nafn og símanúmer fylgi með í lokuðu umslagi. Einnig er hægt að senda vísur og botna í tölvupósti á netfangið bokasafn@skagafjordur.is og verður þá viðkomandi höfundi gefið dulnefni, ef það fylgir ekki með, áður en vísunar fara til dómnefndar.

Úrslit verða tilkynnt sunnudaginn 25. apríl, vonandi við setningu Sæluviku Skagfirðinga, í Safnahúsinu á Sauðárkróki.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir