L&E ehf. tekur við rekstri tjaldsvæðisins á Blönduósi - Leggja áherslu á framúrskarandi þjónustu og vinalegt viðmót

Liya og Valdimar við undirritun samningsins. Mynd: Blönduós.is
Liya og Valdimar við undirritun samningsins. Mynd: Blönduós.is

Um síðustu mánaðamót var tilkynnt um nýja rekstraraðila tjaldsvæðisins í Brautarhvammi á Blönduósi en þar er á ferðinni fyrirtækið L&E ehf. sem er í eigu Liyu og Ebba sem einnig eiga og reka matsölustaðinn Teni. Á heimasíðu Blönduóss kemur fram að einnig verði starfrækt Upplýsingamiðstöð í gamla Kaupfélagshúsinu en gert er ráð fyrir að fjöldi manns ferðist innanlands í sumar og nýir rekstraraðilar byrjaðir að undirbúa móttöku ferðalanga. Feykir sendi spurningar á Liyu og forvitnaðist um þetta nýja fyrirkomulag í bænum.

Hvernig kemur það til að þið takið rekstur tjaldsvæðisins að ykkur?
-Við sáum þegar bærinn óskað eftir áhugasömum aðilum til þess að taka reksturinn á svæðinu að sér og hugsuðum, því ekki að prufa þetta með? Alltaf gaman að hitta fólk og kynnast einhverju nýju.

Tjaldsvæðið á Blönduósi. Mynd: Tjalda.is.

Munu gestir sjá einhverjar breytingar frá fyrri árum?
-Svæðið á Blönduósi hefur verið mjög vel rekið undanfarin ár, en nýju fólki fylgja alltaf einhverjar breytingar, Við munum verða sýnilegri á samfélagsmiðlum en áður hefur verið auk þess að fólki gefst færi á að bóka og greiða fyrir dvöl sína á svæðinu í gegnum https://parka.is/blonduos/#reservation.

Hvaða áherslur munið þið leggja á í rekstri tjaldsvæðisins?
-Við munum að sjálfsögðu leggja áherslu á framúrskarandi þjónustu og vinalegt viðmót. Einnig munum við leggja áherslu á það í samstarfi við bæjaryfirvöld hér á Blönduósi að bæta aðgengi að svæðinu, slétta flatir og fjölga rafmagnstenglum. Og tryggja það að tjaldsvæðið á Blönduósi verði þekkt fyrir góða þjónustu og frábæra staðsetningu enda erum við alveg við þjóðveg 1 án þess að það hafi truflandi áhrif á gesti svæðisins.

Hvað geturðu sagt mér um upplýsingamiðstöðina í gamla Kaupfélagshúsinu?
-Í gamla Kaupfélagshúsinu munum við verða með þjónustumiðstöð, eða upplýsingamiðstöð, fyrir ferðamenn auk þess að þar verður hægt að fá sér kaffi, ís og margt annað sem fólk gæti vanhagað um á ferðalögum um landið.

Hvernig hefur gengið að reka veitingastað í því Covid ástandi sem ríkt hefur í meira en ár?
-Það hefur gengið þokkalega en alls ekki verið auðvelt. Við neyddumst til þess að hætta með eþíópíska matinn, sem er aðalatriði hjá okkur, núna í vetur þar sem það var einfaldlega ekki nóg að gera til þess að bjóða upp á hann. En við vorum með opið alla virka daga í hádeginu, en eingöngu tvö kvöld í viku, en núna á allra næstu dögum munum við kynna sumaropnunina hjá okkur og hver veit nema það verði eitthvað nýtt og spennandi á matseðlinum hjá okkur í sumar.

Einn af réttunum á Teni. Mynd af Facebook-síðu Teni.

Hvernig sérðu sumarið fyrir þér?
-Við förum full bjartsýni inn í sumarið og vonum að ferðamenn verði jafn duglegir að stoppa hjá okkur og þeir voru í fyrrasumar. Við erum eingöngu nokkra metra frá Þjóðvegi 1 og rétt við sundlaugina og skólalóðina þar sem er frábært leiksvæði fyrir börn. Við verðum að sjálfsögðu með opið alla daga fram á kvöld. En það er alltaf erfitt að spá fyrir um sumarið þar sem þetta veltur allt svolítið mikið á því hvernig viðrar og hvernig staðan á þessari blessuðu veiru verður. En að sjálfsögðu förum við full bjartsýni og jákvæð inn í sumarið og getum ekki beðið eftir því að fá að kynna eþíópíska matargerð fyrir bæði innlendum og erlendum gestum á næstu mánuðum. En við erum að sjálfsögðu líka með fleira en eþíópískan mat í boði.

Eitthvað sem þú vilt koma á framfæri?
-Okkur langar að þakka öllum æðislega fyrir þær móttökur sem við höfum fengið á svæðinu frá því við komum hingað norður. Þessi rekstur gengi aldrei upp ef við hefðum ekki heimamarkaðinn með okkur. Því þó ferðamaðurinn sé stórt atriði er það mjög mikilvægt fyrir stað af okkar stærðargráðu og á þessu svæði að heimafólk sé duglegt að nota þá þjónustu sem er í boði. Við erum t.d. með heimilismat í hádeginu alla virka daga, veisluþjónustu fyrir þá sem eftir því hafa óskað og margt fleira. Við stefnum á að byggja upp bæði fjölskyldu og rekstur á Blönduósi á næstu árum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir