Laust embætti rektors á Hólum

Frá Hólum í Hjaltadal. MYND: HINIR SÖMU
Frá Hólum í Hjaltadal. MYND: HINIR SÖMU

Á vef Stjórnarráðsins má sjá að embætti rektors við Háskólann á Hólum er laust til umsóknar. Leitað er að framsýnum og metnaðarfullum leiðtoga í krefjandi og fjölbreytt starf rektors. Mikilvægt er að viðkomandi hafi brennandi áhuga á háskólamálum og skýra framtíðarsýn fyrir akademískt hlutverk skólans. Rektor er æðsti stjórnandi háskólans og talsmaður hans út á við.

Erla Björk Örnólfsdóttir hefur gegnt starfi rektors við Háskólann á Hólum en hún var ráðin í starfið í febrúar 2012 af þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra, Katrínu Jakobsdóttur, og hefur því senn gegnt stöðunni í tíu ár. Erla Björk hafði áður starfað sem forstöðumaður Varar – Sjávarrannsóknarseturs í Ólafsvík.

Helstu verkefni og ábyrgð:
- Ábyrgð á að skólastarfið sé í samræmi við lög, reglugerðir og önnur gildandi fyrirmæli á hverjum -tíma.
- Stjórnun skólans, stefnumótunarvinna og umbótastarf.
- Daglegur rekstur, þ.m.t. áætlanagerð og kostnaðareftirlit.
- Samskipti við stjórnvöld og aðra samstarfsaðila.

Hæfniskröfur:
- Akademískt hæfi og þekking á rannsóknum og starfi háskóla.
- Farsæl reynsla af stjórnun og rekstri.
- Leiðtogahæfileikar og framúrskarandi samskiptahæfni.
- Reynsla af stefnumótunarvinnu og breytingastjórnun.
- Frumkvæði og metnaður til að ná árangri í starfi.
- Hæfni til nýsköpunar og að hrinda breytingum í framkvæmd.
- Góð kunnátta í íslensku og ensku, bæði í ræðu og riti.
- Þekking og reynsla af stjórnsýslu er kostur.

Gert er ráð fyrir að ráðherra háskólamála skipi í embætti rektors til fimm ára frá og með 1. júní 2022 skv. tilnefningu háskólaráðs. Háskólaráð tilnefnir valnefnd sem metur hæfi umsækjenda.

Umsóknarfrestur er til og með 7. febrúar 2022. Sjá má nánari upplýsingar á vef Stjórnarráðsins og þá veitir Edda Matthíasdóttir - edda@holar.is - Sviðsstjóri mannauðs, gæða og rekstrar við Háskólann á Hólum einnig nánari upplýsingar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir