Króksarar gera strandhögg á norskum grundum 1984

Uppstilltir og vatnsgreiddir Stólar í norskri rigningu. Efri röð frá vinstri: Matti Viktors, Inga Andreasen, Egill Birkir, Guðbjartur, Hjalti Árna, Gunni Gests, Pálmi Sighvats og Birgitta Páls. Miðröð frá vinstri: Héddi Sig, Ari Jón, Stebbi Cam, Sigtryggur Reynalds og Örn Sölvi. Neðsta röð frá vinstri: Sjonni Skúla, Óli Arnar, Atli Sveins og Gísli Konn.
Uppstilltir og vatnsgreiddir Stólar í norskri rigningu. Efri röð frá vinstri: Matti Viktors, Inga Andreasen, Egill Birkir, Guðbjartur, Hjalti Árna, Gunni Gests, Pálmi Sighvats og Birgitta Páls. Miðröð frá vinstri: Héddi Sig, Ari Jón, Stebbi Cam, Sigtryggur Reynalds og Örn Sölvi. Neðsta röð frá vinstri: Sjonni Skúla, Óli Arnar, Atli Sveins og Gísli Konn.

Á því herrans ári 1984 steig hópur glaðbeittra tuðrusparkara í 4. flokki Tindastóls upp í Benz-kálf sem renndi síðan frá sundlauginni á Króknum á fallegu júlíkvöldi. Eldri helmingur hópsins nýfermdur og fullkomlega sáttur við að vera kominn í tölu fullorðinna. Framundan var ævintýraferð á Norway Cup – stærsta fótboltamót í heimi – sem fram fór í Osló.

Það voru strákar úr 1970 og 1971 árgöngunum, þá 13 og 14 ára gamlir, sem skipuðu 4. flokk þetta sumar. Við þekktumst allir vel og höfðum flestir endalaust spilað fótbolta; æft með yngri flokkum Tindastóls og vorum allir í fótboltafélaginu Þrumu sem við höfðum nokkrir stofnað.

Undirbúningur fyrir ferðina hafði staðið mánuðum saman. Safnað var fyrir ferðinni með sölu á einu og öðru dóti, til dæmis bókinni Ráð undir rifi hverju, ljósastaurar á Króknum voru málaðir og þar fram eftir götunum. Pálmi Sighvats þjálfaði okkur og lagði mikla áherslu á gott úthald með reglulegum Nafa- og stúkuhlaupum og kynnti okkur fyrir hinum myrkari bellibrögðum boltamanna. Ef einhver lenti í því að vera dekkaður þannig að andstæðingurinn stóð fyrir aftan hann þá voru teknar æfingar í því að bakka aðeins og stíga ofan á viðkomandi, ef hann var kominn full nálægt þá var æft að lauma hönd aftur fyrir sig og klípa á góðan stað. Til lengdar þóttu þessar æfingar ekki skemmtilegar en að sjálfsögðu vildu utanfararnir ekki láta taka sig í bólinu á erlendri grundu og masteruðu myrkraverkin – en kannski af mismiklum áhuga.

Hann var reyndar ekki stór hópurinn sem lagði af stað, aðeins 14 drengir, nýklipptir og fínir með vasadiskóin og takkaskóna á sínum stað. Mikil kátína var framan af í rútuferðinni, markvörður liðsins, Gylfi Ingimars, í fádæma fíling og dreifði gamanyrðum og hló eins og enginn væri morgundagurinn. Við keyrðum inn í nóttina og smám saman dró af hinum vösku íþróttakempum. Við áttum að fljúga til Noregs eldsnemma að morgni, sumir okkar að fara til útlanda í fyrsta skipti. Við komum í gömlu flugstöðina á Keflavíkurvelli um fjögur um nóttina, langfyrstir væntanlegra utanfara.

Við röltum inn með töskurnar okkar um leið og opnað var, framlágir eftir lítinn svefn en auðvitað spenntir. Eftir innritun náðu einhverjir okkar að finna sér sæti til að hvílast á og sátu í móki þegar skaðræðisvein skar loftið. Nokkrir strákanna höfðu dundað sér á töskufæribandinu, einn náði að kveikja á því og Gylfi lenti með fótinn á vondum stað. Honum var í skyndi ekið á sjúkrahús í Keflavík og meiðslin reyndust það mikil að það varð að skilja kappann eftir á Íslandi. Við ekki komnir úr landi og eini markvörður liðsins þegar úr leik. Við vorum sennilega flestir í hálfgerðu sjokki þegar við kvöddum land og þjóð áður en strandhögg yrði unnið á norskum knattspyrnugrundum – og það sem við vorkenndum Gylfa.

Íbúar Kongsberg flúðir til fjalla

Við lentum í sól og sumaryl í Osló. Tveir bandarískir Ford Econoline eðalvagnar biðu eftir okkur á flugvellinum og hópurinn skipti sér á bílana. Fararstjórarnir í ferðinni voru fjórir; Pálmi þjálfari og Birgitta konan hans og svo Matti Viktors, félagsmálastjóri á Króknum, og Inga. Hjónin Matti og Inga höfðu búið í Noregi og voru öllum hnútum kunnug. Matti tók því stjórnina og brunað var af stað niður Oslófjörðinn í átt að vinabæ Sauðárkróks, Kongsberg.

Leiðin var falleg en framandi, fjöll sem varla sást í fyrir trjám og allir vegir malbikaðir þó þeir hlykkjuðust eftir landslaginu eins og heima. Í Kongsberg áttum við að taka þátt í eins konar undirbúningsmóti fyrir stórátökin sem biðu okkar í Osló. Aðstaðan sem beið okkar í vinabænum var reyndar ekki upp á marga fiska þó allt hafi þetta verið ævintýri fyrir okkur strákana. Í norsku hyttunum sem við bjuggum í, þrír og þrír saman, var engin hreinlætisaðstaða og hvað þá (og kannski sem betur fer) ekki aðstaða til að elda. Við þurftum því að fara á allt annan stað í bænum til að komast í mat og sturtu, sem reyndar var talsvert mas því á þessum árstíma hafa flestir heimamanna þann sið að skottast í hytturnar sínar uppi í fjöllum og því varla lífsmark í bænum. Það var bara vesen að finna einhvern til að opna fyrir Króksurunum.

Mótið fór vel, við spiluðum tvo leiki, unnum fyrri leikinn 5-0 en sá síðari endaði með markalausu jafntefli. Splunkunýr markvörður liðsins, Stebbi Cam, var kannski ekki alveg helsáttur við að hafa verið munstraður í markmannsbúninginn en góð byrjun efldi sjálfstraustið enda hélt hann hreinu í fyrstu tveimur leikjum sínum. Þá var það ekki dónalegt fyrir Stebba að hann öðlaðist heimsfrægð í Noregi, fékk alveg óvænt drottningarviðtal við sig í norska Dagbladet sem fjallaði ítarlega um Norway Cup alla daga mótsins. Það fannst okkur flott.

Í Kongsberg skoðuðum við gamla silfurnámu og röltum um bæinn þar sem búðir voru almennt lokaðar vegna sumarfría. Að lokum bauð sveitarfélagið knattspyrnukempunum ungu í mat og kynntumst við þar þjóðarrétti Norðmanna, svokallaðri labbskássu. Hún virtist nánast vera það eina sem heimamenn höfðu fyrir að elda, því þessi kássa, bara þynnri, tók á móti okkur í risamötuneytinu í Osló. Það endaði með því að Hjalti Árna gaf henni nafnið Fokking labbskássa með tilheyrandi þreytu- og reiðitóni.

Eftir þriggja daga dvöl í Kongsberg var haldið á ný til Oslóar á sunnudegi þar sem 24 þúsund þátttakendur á aldrinum 9–18 ára, frá 14 löndum, biðu eftir Króksurunum – þátttakendurnir voru semsagt ríflega tífalt fleiri en íbúarnir á Króknum. Liðið okkar var fyrsta íslenska liðið til að taka þátt í Norway Cup og ekki algengt á þessum tíma að senda óharðnaða unglingspilta úr landi til að spila fótbolta – nema kannski með unglingalandsliðunum.

Norway Cup 1984

Fyrsti leikurinn gegn Skarphedinn var eldsnemma á mánudagsmorgni og endaði með jafntefli. Næstu tveir leikir á mótinu, gegn Våleringa og Florvåg, voru daginn eftir og töpuðust og þar með vorum við úr leik og ekki enn farnir að svitna. Eftir alla þrekþjálfunina hjá Pálma vorum við varla byrjaðir að spila þegar leikirnir, sem voru bara 2x15 mínútur hver, voru búnir. Það var auðvitað pínu skúffelsi að spila bara þrjá leiki á mótinu þegar mætt voru til leiks nokkur hundruð lið í okkar aldursflokki og minnst 34 fótboltavellir í boði í borginni. Við víkingarnir fengum fyrir vikið meiri tíma til að spóka okkur í miðbæ höfuðborgar Noregs og sérstaklega var vinsælt að heimsækja stórverslunina Sten & Ström. Sá eðalstaður var á nokkrum hæðum – og ein þeirra var nán-ast yfirfull af sælgæti! Sumir liðsmenn Tindastóls æddu um gangana, nammióðir með augun stand-andi á stilkum. Þarna kom þá loksins þrekþjálfunin sterk inn.

Í stórversluninni var einnig víðfeðm íþróttavöruverslun og verður að viðurkennast að úrvalið var töluvert meira en í Versluninni Tindastóli heima á Hólaveginum. Gínur um alla hæð í geggjuðum sportklæðnaði. Einn Króksaranna var hrifinn af einum galla og þuklaði kurteislega á efninu ... þangað til manninum sem var í gallanum þótti nóg komið, færði sig örlítið til og ræskti sig hneikslaður. Hrökklaðist kappinn þá undan rústrauður – enda ansi brugðið eftir þetta óvænta lífsmark hjá gínunni.

Í Osló gistum við í skólahúsnæði ásamt níu öðrum liðum. Höfðum eina stofu út af fyrir okkur þar sem menn sofnuðu seint, hálf steiktir af nammiáti og meðfylgjandi svefngalsa. Í skólanum var sjoppa í anddyrinu þar sem hægt var að verða sér úti um helstu nauðsynjar eins og til dæmis en kúk eins og Gísli Konn orðaði það svo skemmtilega. Átti þar að sjálfsögðu við kók en var snöggur að ná norska hreimnum þó betra hefði kannski verið að biðja um en kóla. Í það minnsta var daman í afgreiðslunni pínu hissa. Þegar leið á tímann okkar í skólanum fóru dömur að gera hosur sínar grænar fyrir helstu tískuspekú-löntum hópsins sem voru eins og klipptir út úr Bravo eða PopRocky blöðunum þýsku sem hægt var að nálgast í betri bókabúðum.

Dagana í Osló notuðum við strákarnir síðan í að horfa pínu á fótboltaleiki, fari í sundlaugarferðir, búðarölt og þá heimsótti hópurinn að sjálfsögðu Holmenkollen og rölti hersingin upp í efstu hæðir skíðastökkpallsins. Allir voru sammála um að þeir væru klikk þessir skíðastökkvarar – þetta leit út fyrir að vera hættulegt sport. Ef ég man rétt heimsóttum við líka Vasa-safnið. Eftir á að hyggja var kannski ekki margt spennandi sem Osló bauð upp á sem var við hæfi 24 þúsund gesta á unglingsaldri.

Við Héddi Sig, góðvinur minn, skildum við hópinn í tvo daga þegar langt var liðið á ævintýraferðina. Við gistum þá tvær nætur á sveitabænum Sæther Gård skammt frá bænum Gjövik þar sem Héddi fæddist einmitt. Á bænum bjó vinafólk foreldra hans, svínabóndinn Lars og kona hans, Aud, matráður á sjúkrahúsi bæjarins. Gjövik stendur við Mjøsa, stærsta vatn Noregs, um 100 kílómetra norður af Osló en nú búa þar ríflega 50 þúsund manns. Þangað héldum við eins og séntilmenn með járnbrautarlest, þó sennilega báðir pínu umkomulausir, tveir á ferð á ókunnum slóðum. Við fórum út á réttri stöð ... eða hvað? Það var enginn kominn til að taka á móti okkur! Eftir nokkurra mínútna hik afréðum við að taka Taxa, enda þarna nánast komið fram yfir leyfðan útgöngutíma barna og unglinga í Noregi og nótt í norsku tugthúsi höfðaði ekki til Króksaranna. Um leið og við vorum sestir inn í leigubílinn kom bóndinn á sínum fölbláa franska Citroën og pikkaði okkar upp.

Grillað á svölunum hjá Ómari og Maríu

Ég man undarlega fátt frá þessari heimsókn, sem er miður, en ég man þó hvað það var gott að leggjast loksins í stórt og mjúkt rúm um kvöldið og steinsofna. Vakna síðan endurnærður en hjá ókunnugum. Því var ég ekki vanur. Eftir morgunmat skoðuðum við búið og þar á meðal svínin sem voru mér frekar framandi skepnur. Síðar um daginn var farinn smá rúntur á Citrónum og kannski fengum við vöfflur. En hvað um það, við héldum aftur til Oslóar og þar beið Matti, kátur og hress, á lestarpallinum og tók ekki annað í mál en að sýna okkur Holmenkollen þar sem við tveir höfðum misst af þeirri heimsókn meðan við dvöldum á svínabúinu. Svo þangað var brunað og þótti ekki leiðinlegt.

Áður en heim var haldið var okkur reddað einum leik en við höfðum ekkert fengið að spila fótbolta í nokkra daga og vorum orðnir hungraðir í bolta og sprikl. Ómar Bragi og María Björk bjuggu í Osló á þessum tíma, voru búin að eignast Stefán Arnar, og þannig vildi til að Stebbi Vagn, bróðir Ómars, var í heimsókn. Bæði Ómar og María höfðu kennt okkur strákunum í barnaskóla og þau buðu okkur heim í blokkaríbúð í grillaðar pylsur og stuð og þar var fagnaðarfundur. Þetta var ljúft. Ómar spilaði og þjálfaði á þessum tíma með liði úti og hann kom á leik milli okkar og stráka í sama aldursflokki. Sem við töpuðum 4–2, enda formið ekki upp á það besta eftir sumbl og sætindi daganna á undan.

Sennilega vorum við orðnir hálf dasaðir eftir þetta ljúfa ævintýri okkar, sólina, hitann og spennandi upplifanir. Ég man ekki einu sinni eftir að hafa farið heim.

 

- - - - - 
Þakkir til Hédda Sig, Ómars Braga, Matta Viktors, Hjalta Árna og Sigga Sveins fyrir myndalán og veitta aðstoð.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir