Kreppa í aðsigi – Leiðari Feykis
Enn er barist í Úkraínu hvar Pútín þenur vítisvélar sínar sem aldrei fyrr. Fyrir eru hugdjarfir heimamenn sem staðráðnir eru í að verjast fram í rauðan dauðann og vonast eftir aðstoð annarra Evrópuríkja og jafnvel Bandaríkjanna. Af fréttum að dæma er lítil von um hernaðarlega íhlutun annarra ríkja í öðru formi en útvegun vopna eða hernaðartækja til varnar. Spurning hvað það dugar lengi gegn öflugum rússneskum her sem staðráðinn er í að ná yfirráðum í landinu hvað sem það kostar.
Úkraína er ekki í NATÓ og því verður ekki að vænta hjálpar þaðan nema Rússar sprengi eitthvað sem kalla mætti hernaðarlega mikilvægt fyrir sambandið eða ógni enn frekar kjarnorkuverum landsins þannig að þjóðir heims telji að stoppa verði forsetann árásagjarna áður en óbyggilegt verður í stórum hluta álfunnar. Morð á saklausum borgurum Úkrínu, konum og börnum, nægir ekki til að önnur lönd fari að vígbúast enda ekki fyrirséð hvaða stefnu stríðið tæki þá.
Friðelskandi fólk út um allan heim spyr sig, hvernig má það vera að svona lagað gerist nú á tímum. Lærðum við ekkert af brjálæðislegri útþenslustefnu nasista sem náði hámarki í seinni heimstyrjöldinni? Margoft hefur maður heyrt, af hverju voru þeir ekki stoppaðir fyrr? Og nú hvarflar hugurinn í sömu átt. Munum við spyrja eftir nokkur ár; Af hverju voru Rússar ekki stöðvaðir strax? Er þetta kjarkleysi eða herkænska? Ég veit það ekki.
En ljóst er að þetta hernaðarbrölt munu kosta okkur heilmikið hér upp á Íslandinu góða sem og annars staðar í Evrópu og þó víðar væri litið. Óvíst er hvernig gangi með útflutning frá Íslandi næstu mánuði þar sem búast má við hækkunum flestra ef ekki allra kostnaðarliða. Nú þegar hafa vörur hingað til lands hækkað í verði vegna hækkaðs orkuverðs í heiminum sem ekki mun lagast ef olía og gas frá Rússlandi hættir að streyma til Evrópu.
Verðbólgudraugurinn er búinn að klæða sig í sparifötin enda hækka vextir með öllum þeim afleiðingum sem þekktar eru á þeim bænum, áburður til bænda hefur tvöfaldast í verði, spáð er að olíuverð eigi eftir að rjúka upp og óvíst hvernig framboði á ýmsum kornvörum verður háttað í framtíðinni. Ekki verður mikið fengið af framleiðsluvörum Rússa þar sem viðskiptaþvinganir eru í gildi og fréttir herma að öllum útflutningi á rúgi, höfrum, byggi, hirsi, sykri, salti, kjöti, búfénaði og fleiri undirstöðuafurðum frá Úkraínu hafi verið hætt en landið er einn stærsti kornútflytjandi heims og hefur á stundum verið kallað brauðkarfa heimsins.
Það er leiðinlegt að segja það en ég held að við ættum að gera ráð fyrir kreppuástandi næstu misserin.
Góðar stundir!
Páll Friðriksson
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.