Kalt í vikunni en spáð hlýrra veðri um helgina
Kuldaboli baular á Norðurlandi vestra þessa dagana og heldur því áfram megnið af vikunni samkvæmt veðurspá Veðurstofunnar. Eitthvað hríðaði í nótt á svæðinu og þar sem flestallir eru væntanlega með farartæki sín á sumardekkjum er rétt að benda á að hálka eða hálkublettir eru á Þverárfjallsvegi, Vatnsskarði, Siglufjarðarvegi og á Öxnadalsheiði. Snjór var í Fljótum og inn til sveita. Hiti í byggð er nú víðast rétt ofan frostmarks og ekki gert ráð fyrir að hiti hækki í dag en reikna má með rigningu eða slyddu af og til.
Heldur hlýrra veðri er spáð á morgun, hægri suðlægri átt og um 5 stiga hita og minni úrkomu. Hætt er þó við því að frost verði á heiðum. Næstu daga á eftir færist hitastigið enn nær frostmarkinu enda vægur vindur að norðan í spánum. Þessum vetrartöktum haustsins lýkur með smá frostsprengju aðfaranótt föstudags þegar hitastigið gæti farið í -10 gráður. Veðurstofan gerir ráð fyrir að það hlýni eftir því sem líður á föstudaginn og sunnanátt verði ríkjandi um helgina og hitinn geti nálgast 10 gráðurnar. Semsagt syngjandi sveifla á hitamælunum en auðvitað er ekki gott að fullyrða um hvort spáin rætist.
Veðrið um liðna helgi var ekki til að hrópa húrra yfir og sérstaklega var laugardagurinn gangnamönnum strembinn. Á Staðarfjöllum var bálhvasst framan af degi og ekki bætti úr skák þegar það fór að hellirigna með smá dassi af éljum. Hrossinn vildu helst snúa höm í veðrið og bíða storminn af sér en allt gekk þó upp að lokum og hestar og menn skiluðu sér í endamark.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.