Kallað eftir tilnefningum til framúrskarandi verkefna á Norðurlandi vestra
Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra kalla eftir tilnefningum til framúrskarandi verkefna á Norðurlandi vestra á árinu 2021. Í frétt á heimasíðu SSNV kemur fram að þetta sé í þriðja sinn sem viðurkenningin verður veitt og gert er ráð fyrir að hún verði afhent á úthlutunarhátíð Uppbyggingarsjóðs Norðurlands vestra í upphafi árs 2022.
Viðurkenningarnar eru veittar í tveimur flokkum; verkefni á sviði atvinnuþróunar og nýsköpunar og síðan verkefni á sviði menningar. Viðurkenningarnar geta fallið í hlut einstaklinga, hópa, félaga, fyrirtækja eða stofnana á Norðurlandi vestra fyrir framlag sitt í ofangreindum flokkum.
Viðurkenningar fyrir framúrskarandi verkefni árið 2019 fengu Sýndarveruleiki ehf. á Sauðárkróki og Kakalaskáli í Skagafirði en viðurkenningar fyrir framúrskarandi verkefni árið 2020 fengu Vörusmiðja Biopol á Skagaströnd og Handbendi brúðuleikhús á Hvammstanga.
Tekið er við tilnefningum til miðnættis 23. desember 2021 í gegnum rafrænt skráningarform en ekki er tekið við tilnefningum með öðrum hætti. Reglur um viðurkenningarnar er að finna hér.
Heimild: SSNV.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.