Kallað eftir jarðgöngum úr Fljótum í Siglufjörð
Siglufjarðarvegur hefur verið talsvert í umræðunni síðustu daga eftir að Trölli.is birti myndir af veginum. Það var einkum og sér í lagi ástand vegarins rétt við gangnamunnann að Strákagöngum sem hleypti hrolli í fólk enda minnir vegarstæðið á köflum á hroðavegi Bólivíu – þó ástand vegarins sé að sjálfsögðu ekki svo slæmt. Hins vegar er töluvert jarðsig á veginum nær Fljótunum, í Mánárskriðum og Almenningi. Ýmsir óttast að vegurinn hreinlega renni í sjó fram einn daginn. Aðstæður eru þannig að lítið er hægt að gera fyrir veginn, enda ekkert pláss til að færa hann.
Í frétt á Vísir.is segir að verið sé að skoða hvort að jarðgöng úr botni Hólsdals í Siglufirði yfir í Fljótin, geti leyst Strákagöng og Siglufjarðarveg af hólmi.
Strákagöng voru tekin í notkun 1967 og eru barn síns tíma, einbreið og drungaleg. Veginum að göngunum var tyllt í hlíðina. „Þetta eru náttúrulega skuggalegar aðstæður,“ er haft eftir Hauki Jónssyni, deildarstjóra hjá Vegagerðinni, í frétt Vísis. „Það vita allir sem nota þennan veg. Það er bratt þarna fram af, það er þarna vegrið og það hefur verið á brúninni alla tíð.“ Gangnagerð eru í frumathugun en um yrði að ræða 5,2 kílómetra löng göng.
Sjá nánar á Trölla.is >
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.