Jólatónleikar í Blönduóskirkju til styrktar orgelsjóði
Olga Vocal Ensemble ætlar að syngja jólin inn í ár í Blönduóskirkju fimmtudaginn 9. desember klukkan 20. Þetta verður í fjórða skipti sem Olga heldur tónleika á Íslandi yfir jólahátíðina og í fyrsta skipti sem hópurinn heldur jólatónleika í Blönduóskirkju. Allur aðgangseyrir rennur óskiptur í orgelsjóð Blönduóskirkju.
Á Húni.is kemur fram að efnisskráin verði skemmtilega fjölbreytt og hentar fólki á öllum aldri. Olga mun m.a. flytja lög af fyrstu jólaplötu hópsins, sem kemur út í byrjun desember og kallast Winter Light.
Tónleikarnir fara fram fimmtudaginn 9. desember klukkan 20 en kirkjan opnar klukkan 19. Miðaverð er 3.000 krónur.
Söngvarar:
Matthew Lawrence Smith - 1. tenór
Jonathan Ploeg - 2. tenór
Arjan Lienaerts – Baritón
Pétur Oddbergur Heimisson - 1. bassi
Philip Barkhudarov - 2. bassi
Hægt er að tryggja sér miða á Tix.is
Daginn eftir heldur hópurinn til Ólafsfjarðar og verður með tónleika þar áður en farið verður suður yfir heiðar en þrennir tónleikar eru fyrirhugaðir í Reykjavík 12. og 13. desember.
Á heimasíðu sönghópsins segir að Olga Vocal Ensemble hafi verið stofnaður árið 2012, með aðsetur í Utrecht, Hollandi en söngvararnir eru hollenskir, íslenskir, enskir og rússnesk-amerískir. Ennfremur segir að þetta verkefni hafi byrjað smátt en fljótlega kom fyrsta giggið í íslenska sendiráðinu í Brussel og svo eftir frumraun hópsins í Hollandi var haldið í fyrsta tónleikaferðalagið um Ísland sumarið 2013. Síðan þá hafa verið teknar upp fimm plötur, farið í tónleikaferðir um Evrópu og Bandaríkin og komið fram í Concertgebouw í Amsterdam, Hörpu í Reykjavík og Kennedy Center í Washington, D.C.
Hér fyrir neðan má heyra og sjá Olga Vocal Ensemble flytja Heyr himna smiður:
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.