Ístak kærir Vegagerðina vegna útboðs Þverárfjallsvegar
Verktakafyrirtækið Ístak hefur kært ákvörðun Vegagerðarinnar um að ganga til samninga við Skagfirska verktaka, sem áttu lægsta tilboð í byggingu nýs vegar á milli Blönduóss og Skagastrandar, eða nánar tiltekið Þverárfjallsvegar (73) í Refasveit og Skagastrandarvegar (74) um Laxá. Meðan málið er til meðferðar hjá kærunefnd útboðsmála verður ekki skrifað undir samning eins og til stóð.
Tilboðin í verkið reyndust þrjú; frá Ístaki hf. í Mosfellsbæ, Borgarverki ehf. í Borgarnesi og Skagfirskum verktökum ehf. á Sauðárkróki sem, eins og áður kom fram, voru með lægsta tilboðið.
Vegagerðin skilaði kærunefndinni greinargerð í gær, þar sem óskað er eftir því að fá heimild til að halda innkaupaferlinu áfram en meðan kæran er til meðferðar hefur samningsgerðin verið stöðvuð eins og skylt er samkvæmt lögum.
Stefán Erlendsson, forstöðumaður lögfræðideildar Vegagerðarinnar, vonast til að kæruferlið komi ekki til með að tefja verkið. „Við vonum að kærumálið fari sem hraðast í gegn en allt ferlið er stopp á meðan kæran er til meðferðar. Við höfum óskað eftir því við kærunefndina að hún heimili okkur að halda ferlinu áfram og ganga frá samningi. Við vonumst eftir því að fá einhver viðbrögð við því innan skamms,“ sagði hann í samtali við Feyki í gær.
Hann segir kæruna snúast í grófum dráttum um það að kærandi véfengir að lægstbjóðandi hafi uppfyllt hæfiskröfur sem skilgreindar eru í útboðslýsingu og þ.a.l. væri Vegagerðinni ekki heimilt að semja við lægstbjóðanda. Samkvæmt því telur Ístak fyrst og fremst Skagfirska verktaka ekki hafa reynslu af sambærilegu verki.
„Þetta snýst aðallega um það að kærandi telur að lægstbjóðandi uppfylli ekki reynslukröfur í útboðinu en einnig að hann uppfylli ekki kröfur um lágmarks ársveltu, þ.e. fjárhagslegum kröfum bjóðenda.“ útskýrir Stefán.
Samkvæmt útboði skal verkinu vera að fullu lokið fyrir 1. nóvember 2023 og stóðu vonir til þess að framkvæmdir hæfust í haust. Slíkt fer þó mikið eftir tíðarfari, segir Stefán: Stefnan hafi verið að undirrita samning núna og hefja svo í kjölfarið vinnu við verkið.
Hvorki Karl Andreassen, framkvæmdastjóri Ístaks, né Bragi Þór Haraldsson, framkvæmdastjóri Skagfirskra verktaka, vildu tjá sig um kæruna meðan hún væri til meðferðar hjá kærunefnd útboðsmála.
Tengdar fréttir:
Skagfirskir verktakar ehf. með lægsta tilboð í Þverárfjallsveg
Styttist í að framkvæmdir við Þverárfjallsveg um Refasveit og Skagastrandarveg um Laxá fari í útboð
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.