Innanlandstakmarkanir hertar til að sporna við hraðri útbreiðslu smita
Almennar fjöldatakmarkanir verða 20 manns og nándarregla tveir metrar í stað eins með ákveðnum undantekningum, samkvæmt því sem fram kemur á heimasíðu stjórnarráðsins. Veitinga- og skemmtistöðum, krám og öðrum stöðum með vínveitingaleyfi ber að loka kl. 21 á kvöldin en hraðprófsviðburðir verða takmarkaðir við 200 manns. Sund- og baðstöðum, líkamsræktarstöðvum og skíðasvæðum verður heimilt að taka á móti 50% af hámarksfjölda.
Þá mega landsmenn fara að rifja upp heimavinnutaktana á ný því hvatt verður til fjarvinnu á vinnustöðum eins og kostur er. Í minnisblaði sóttvarnalæknis segir að greinileg merki eru sýnileg, þrátt fyrir sóttvarnaaðgerðir, að faraldurinn sé að fara í veldisvöxt, sem muni leiða til aukningar á innlögnum og álagi á ýmsa innviði. „Sérstaklega vil ég benda á hættuna á því að starfsemi smitrakningateymis og covid göngudeildar kunni að raskast á næstunni verði þróunin óbreytt, en á báðum stöðum er orðið erfitt að fá fleira fólk til starfa. Þessi starfsemi hefur verið þungamiðjan í aðgerðum okkar til að halda faraldrinum í skefjum og tryggja umönnun og eftirlit smitaðra sem best. Þá er staðan á Landspítala almennt séð afar þung eins og fram hefur komið. Við ákvörðun um sóttvarnaaðgerðir þarf að auki að taka tillit til hins nýja afbrigðis kórónaveirunnar, omicron afbrigðisins, sem nú virðist vera að taka við af delta afbrigðinu, vegna mikillar smithæfni,“ segir Þórólfur Guðnason í minnisblaðinu sínu til heilbrigðisráðherra.
Meginefni nýrra sóttvarnareglna:
Almennar fjöldatakmarkanir 20 manns og börn ekki undanskilin.
Nándarregla 2 metrar. Börn fædd 2016 og síðar eru undanþegin. Á veitingastöðum og meðal gesta á sitjandi viðburðum er nándarregla 1 metri milli sitjandi gesta.
Grímuskylda: Almennt er skylt að nota grímu ef ekki er hægt að virða 2 metra regluna og skylt er að bera grímu í verslunum og verslunarmiðstöðvum. Börn fædd 2006 og síðar eru undanþegin grímuskyldu.
Hraðprófsviðburðir: Með notkun hraðprófa er heimilt að halda skipulagða viðburði fyrir allt að 200 manns í sóttvarnahólfi.
Sitjandi viðburðir án hraðprófa: Hámarksfjöldi 50 manns. Sem dæmi má nefna sviðslistaviðburði, kvikmyndasýningar, íþróttaviðburðir og sitjandi athafnir trú- og lífskoðunarfélaga.
Verslanir og söfn mega taka á móti 50 manns í hverju hólfi að börnum meðtöldum. Fyrir hverja 10 m² má bæta við fimm viðskiptavinum að hámarki 500 manns. Grímuskylda er í verslunum og verslunarmiðstöðvum.
Opnunartími veitingastaða o.fl.: Veitingahúsum og öðrum stöðum þar sem áfengisveitingar eru heimilar er óheimilt að hleypa inn nýjum viðskiptavinum eftir kl. 21.00 og allir gestir eiga að vera farnir hið síðasta kl. 22.00. Sama gildir um einkasamkvæmi á stöðum með vínveitingaleyfi. Nándarregla milli sitjandi gesta á veitingastöðum er 1 metri.
Sund- og baðstaðir, líkamsræktarstöðvar og skíðasvæði: Heimilt er að taka má móti 50% af hámarksfjölda gesta. Börn fædd 2016 og síðar teljast ekki með.
Skólahald
Á öllum skólastigum miðast hámarksfjöldi barna/nemenda við 50 einstaklinga í rými.
Hámarksfjöldi starfsfólks í sama rými eru 20 manns og starfsfólki er heimilt að fara á milli rýma.
Nálægðarmörk: Almennt gildir 2 metra nálægðarregla en sé ekki unnt að tryggja 2 metra reglu er grímuskylda. Leikskólabörn eru undanskilin nálægðarreglu.
Grímuskylda: Almennt er skylt að nota grímu ef ekki er hægt að virða 2 metra regluna. Börn fædd 2006 og síðar eru undanþegin grímuskyldu.
Sviðslistir og kórastarf
Æfingar og sýningar með snertingu eru leyfðar fyrir allt að 50 starfsmenn á sviði. Grímur skal nota eftir því sem hægt er nema þegar listflutningur fer fram og leitast við að fylgja 2 metra reglunni.
Fjöldi sýningargesta: Heimilt er að taka á móti allt að 50 sitjandi gestum í hverju hólfi sem allir bera grímu og sitja í númeruðum sætum. Auk 50 fullorðinna mega vera 100 börn án hraðprófs í sama rými. Hægt er að taka á móti allt að 200 gestum sé fylgt reglum um hraðprófsviðburði. Viðhafa þarf 1 metra reglu milli sitjandi gesta.
Sýningarhlé: Heimilt er að gera hlé á sýningum en áhorfendur skulu hvattir til að halda kyrru fyrir í sætum sínum.
Áfengisveitingar eru óheimilar í tengslum við sýningar, hvort sem er fyrir, í hléi eða eftir.
Íþróttaæfingar og keppnir barna og fullorðinna eru heimilar, jafnt með eða án snertingar, fyrir allt að 50 manns.
Fjarvinna
Hvatt er til fjarvinnu á vinnustöðum eftir því sem mögulegt er.
Sjá nánar HÉR
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.