Icelandair býður til fjölskyldudags á Glerártorgi
Norðlendingar tóku vel á móti flugfélaginu NiceAir sem flaug frá Akureyri til áfangastaða erlendis. Það félag varð því miður ekki langlíft, hóf sig til flugs í febrúar 2022 en lauk starfsemi í vor. Nú hyggst Icelandair koma til móts við Norðlendinga og bjóða upp á flug milli Akureyrar og Keflavíkur til reynslu í vetrarbyrjun og blæs því til kynningar og fjölskyldudags laugardaginn 26. ágúst næstkomandi á Glerártorgi á Akureyri. Þar verður boðið upp á fjölbreytta dagskrá fyrir alla fjölskylduna og þar á meðal verða tónlistaratriði, húllasýning, andlitsmálun og veitingar. Auk þess verður glæsilegt lukkuhjól sem færir heppnum þátttakendum veglega vinninga og ratleikur þar sem hægt er að vinna flugferð fyrir fjóra til Barcelona.
Nánari upplýsingar um viðburðinn er að finna á Facebook. Þau sem skrá sig á viðburðinn á Facebook fara í pott og eiga möguleika á að vinna 25 þúsund króna gjafabréf frá Icelandair. Viðburðinn er að finna hér: Fjölskyldudagur Icelandair á Akureyri 26. ágúst! | Facebook
Flug milli Akureyrar og Keflavíkur hefst í október
Í fréttatilkynningu frá Icalandair kemur fram að á fjölskyldudeginum verður einnig sérstök kynning á alþjóðatengingu Icelandair á milli Akureyrar og Keflavíkur en boðið verður upp á hana á tímabilinu 15. október til 30. nóvember. Á tímabilinu verður flogið þrisvar sinnum í viku frá Akureyri til Keflavíkur, á mánudögum, fimmtudögum og laugardögum klukkan 5:50 að morgni og þrisvar sinnum í viku frá Keflavík til Akureyrar á miðvikudögum klukkan 21:20 og föstudögum og sunnudögum klukkan 17:15. Með fluginu verður auðvelt að tengja við fjölda áfangastaða Icelandair í Evrópu.
„Við leggjum mikla áherslu á góð tengsl við viðskiptavini okkar og hafa fjölskyldudagar okkar reynst bæði góð og skemmtileg leið til þess. Nú styttist í að við byrjum með alþjóðatengingu á milli Akureyrar og Keflavíkur með mjög góðum tengingum fyrir Norðlendinga við flugáætlun okkar frá Keflavíkurflugvelli. Reyndar svo góða að Akureyringar geta lagt af stað heiman frá sér á svipuðum tíma og þeir sem búa í 101 Reykjavík. Við munum meðal annars kynna alþjóðatenginguna okkar en megináherslan verður á að skemmta sér saman. Við erum mjög spennt fyrir því að hitta sem flesta á laugardaginn og hvetjum Norðlendinga til að líta við og taka þátt í dagskránni með okkur,“ segir Sylvía Kristín Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri þjónustu og markaðsmála hjá Icelandair.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.