Íbishóll lið kvöldsins í slaktaumatölti
Keppni í slaktaumatölti T2 í Meistaradeild KS í hestaíþróttum fór fram í reiðhöllinni Svaðastöðum þann 21. apríl sl. Guðmar Freyr Magnússon og Glymjandi frá Íbishóli sigruðu með einkunnina 7.71 og fleiri fjaðrir fóru í hatta Íbishólsliðsins sem sigraði liðakeppnina eftir keppni kvöldsins.
Bjarni Jónasson landaði öðru sætinu í slaktaumatöltinu með hryssuna Þórhildi frá Hamarsey með einkunnina 7,42 og í því þriðja lentu Védís Huld Sigurðardóttir og Hrafnfaxi frá Skeggsstöðum með 7.33. Því næst komu Fanney Dögg Indriðadóttir og Trygglind frá Grafarkoti með einkunnina 7.25, Finnbogi Bjarnason og Harpa Sjöfn frá Hvolsvelli með einkunnina 7.13 og Mette Mannseth og Blundur frá Þúfum með einkunnina 6.04.
Eins og fram hefur komið stóð lið Íbishóls uppi sem sigurvegari í liðakeppninni í slaktaumatöltinu og leiðir nú keppnina þegar mótið er hálfnað.
- Íbishóll 150,2 stig
- Þúfur 141,5 stig
- Hrímnir 136,7 stig
- Storm Rider 117,2 stig
- Hofstorfan 106,5 stig
- Uppsteypa 100,5 stig
- Leiknisliðið 89,5 stig
- Equinics 88 stig
Það er ekkert verið að tefja í Meistaradeildinni því á morgun er komið að næstu grein þegar keppt verður í fimmgangi. Þau sem ætla sér að mæta í reiðhöllina ættu að hafa í huga að fólk sem ætlar að sitja saman panti miða saman þar sem sæti verða númeruð og einungis þeir sem panta saman fá sæti hlið við hlið. Fyrir hina sem vilja fylgjast með á skjánum er hægt að nálgast beina útsendingu á slóðinni https://mdks.tindastolltv.com.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.