Hvetur alla íbúa að taka þátt í kosningunni - Ingvar Björnsson Húnavatnshreppi
Ingvar Björnsson býr á Hólabaki í Þingi og rekur, ásamt Elínu Aradóttur konu sinni, kúabú og textíl- og hönnunarfyrirtæki sem framleiðir vörur undir vörumerkjunum Lagður og Tundra. Þau hjón eiga þrjú börn, Aðalheiði 15 ára, Ara 12 ára og Elínu 8 ára. Ingvari finnst faglega hafi verið staðið að undirbúningi sameiningar og er hlynntur þeim.
Hvernig líst þér á að sveitarfélögin í Austur-Húnavatnssýslu verði sameinuð?
-Sameining sveitarfélaga í A-Hún er löngu tímabært framfaraskerf.
Hvað telur þú jákvætt við þær?
-Ef vel tekst til mun sameining þjappa Austur-Húnvetningum saman og hvetja þá til að stefna til framtíðar og byggja héraðið upp. Vonandi mun draga úr þeirri togstreitu sem oft verður vart við inn til héraðsins. Mikilvægt er að íbúar átti sig á því að það er sama hvar uppbyggingin á sér stað, allt sem gert er til framfara styrkir svæðið í heild. Við eigum að leggjast sameinuð á árarnar og róa í takt til betri framtíðar.
Hvað neikvætt?
-Til lengri tíma sé ég ekkert sem talist getur neikvætt. Til skemmri tíma er það ljóst að ferli sem þessu fylgja oft einhver tímabundin sárindi vegna ummæla sem falla í hita leiksins og niðurstöðu sem hluti íbúa er ósáttur við. Það er því ljóst að ef af sameiningu verður þarf að vanda mjög til verka í framhaldinu til að sætta íbúa og mismunandi sjónarmið.
Hvernig telur þú að sameining eigi eftir að breyta þinni afkomu ef nokkuð?
-Sameining mun ekki hafa bein áhrif á okkar rekstur eða afkomu. Til framtíðar mun sameining þó styrkja svæðið og gera það ákjósanlegra til búsetu og renna á þann hátt stoðum undir rekstur og afkomu fyrirtækja og rekstaraðila á svæðinu.
Hefur þú fylgst með umræðum og skrifum á heimasíðu sameiningarnefndar Húnvetningur.is?
-Hef fylgst lauslega með efni á Hunvetningur.is.
Er eitthvað sem þér finnst tortryggilegt sem sett er fram um hugsanlega sameiningu?
-Nei.
Er eitthvað þar sem þú ert virkilega sammála?
-Almennt má segja að vel og faglega hafi verið staðið að undirbúningi sameiningar. Sem dæmi má nefna stofnun starfshópa um skilgreind verkefni þar sem reynt er að draga saman stöðu málaflokka og hugsanleg áhrif sameininga á þróun þeirra. Framsetning þessa efnis á heimasíðunni Húnvetningur.is er ágæt og margt þar sem hægt er að taka undir. Þá má segja að umræðan sé almennt hófstillt og málefnaleg.
Hvað gætir þú hugsað þér að sameinað sveitarfélag myndi heita?
-Húnaþing.
Eitthvað sem þú vilt koma á framfæri?
-Ég vil hvetja alla íbúa sveitarfélaganna í Austur Húnavatnssýslu til að taka þátt í sameiningarkosningunni. Hver og einn verður að spyrja sig að því hvort okkur sem samfélagi mun farnast betur í einu sterku sameinuðu sveitarfélagi eða í gömlu einingunum. Ég er sannfærður um að ef fólk skoðar málið í víðu samhengi, og af yfirvegun, þá verður niðurstaðan sú að mikill meirihluti íbúa allra sveitarfélaganna mun kjósa með sameiningu og þar með bjartri framtíð Húnaþings.
Í tilefni íbúakosninganna í Austur-Húnavatnssýslu, þar sem fjögur sveitarfélög bíða örlaga sinna um sameiningu eður ei, sendi Feykir, af handahófi, fjórum einstaklingum úr sitthverju sveitarfélagi héraðsins, spurningar til að kanna hug þeirra til verkefnisins og birtist í 20. tbl. Feykis 2021, sjá HÉR.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.