Hundadagar hefjast í dag
Hundadagar byrja í dag en þeir marka tiltekið skeið sumars um heitasta tímann á norðurhveli, nú talið frá 13. júlí (Margrétarmessu) til 23. ágúst í Almanaki Háskólans, eða sex vikur. Á WikiPedia segir að nafnið muni komið frá Rómverjum, er sóttu hugmyndina til Forn-Grikkja. Samkvæmt gamalli veðurtrú má búast við afar góðu sumri en veður þessa dags ræður miklu um tíðarfarið fram að lokum ágústmánaðar.
„Grikkir settu sumarhitana í samband við stjörnuna Síríus, sem Íslendingar kölluðu hundastjörnuna allt frá fyrrihluta 18. aldar, sem er bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Stóri-hundur (Canis Major), sem um þetta leyti árs fór að sjást á morgunhimninum. Forn-Egyptar tengdu einnig árið við stjörnumerkið Stórahund og kölluðu það Síríus-ár, en hinn árlegi vöxtur árinnar Níl hófst á þessum tíma. Aftur á móti tengdu Grikkir og Rómverjar hitann við hundastjörnuna og þá aðallega skaðleg áhrif hans á gróður, menn og skepnur. Þótti til dæmis meiri hætta á hundaæði á þessum tíma,“ segir í færslu WikiPedia.
Á Almanak.is kemur fram að bæði hérlendis og erlendis hafi nokkuð verið á reiki hvenær hundadagatímabilið teldist byrja og hve lengi það stæði. Grikkir munu hafa tekið eftir því að Síríus birtist þegar sól gekk í ljónsmerki, og með hliðsjón af því eru hundadagar stundum reiknaðir frá 23. júlí til 23. ágúst. Segir í færslunni að það hafi t.d. verið gert í íslenska almanakinu fram til 1924 og sömu reglu sé enn fylgt í danska almanakinu og því norska. „Hjá Íslendingum er hundadaganafnið tengt minningunni um Jörund hundadagakonung sem tók sér völd á Íslandi 25. júní 1809, en var hrakinn frá völdum 22. ágúst sama ár,“ segir á Almanak.is.
Hægt er að finna í mörgum heimildum að þá veðurtrú hafi Íslendingar haft að upphaf hundadaga segði til um veðurfar næstu vikna og jafnvel fram á höfuðdag, 29. ágúst og yrði þá tíðarfarið svipað og gerðist á Margrétarmessu þann 13. júlí.
Gömul veðurvísa staðfestir þetta:
Ef á Margrétarmessu er dögg
mun það lítið bæta,
þá mun haustið hey og plögg
í húsum inni væta.
Flestir tengja hundadaga við stjórnartíð Jörgens Jörgensen sem varði frá 25. júní til 22. ágúst árið 1809 og Íslendingar kölluðu hann Jörund hundadagakonung. Árni Björnsson segir frá því í bókinni Saga daganna að:
„Svo fast greyptist Jörundur í vitund þjóðarinnar og svo fjarlægur er uppruni dagaheitisins hundadagar að tíu heimildamenn þjóðháttadeildar víðsvegar af landinu könnuðust ekki við aðra skýringu en að tímabil væri kennt við stjórnartíð Jörundar hundadagakonungs. (190) En viðurnefni Jörundar er semsagt tilkomið vegna þess að hann var við völd um það leyti sem hundadagar voru.“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.