Húnabyggð og Skagabyggð ræða mögulega sameiningu

Kálfshamarsvik. MYND: ÓAB
Kálfshamarsvik. MYND: ÓAB

Húnahornið segir frá því að sveitarstjórnir Húnabyggðar og Skagabyggðar hafa skipað fulltrúa í sameiginlegan vinnuhóp um mögulega sameiningu sveitarfélaganna.

Fulltrúar Húnabyggðar eru Guðmundur Haukur Jakobsson, Auðunn Sigurðsson, Elín Aradóttir og Ragnhildur Haraldsdóttir. Fulltrúar Skagabyggðar eru Bjarney Jónsdóttir, Kolbrún Guðnadóttir, Kristján Heiðmar Kristjánsson og Magnús Björnsson.

Þá hafa sveitarstjórar sveitarfélaganna seturétt með málfrelsi og tillögurétt á fundum vinnuhópsins.

Niðurstaða starfshóps var að ræða sameiningu við Húnabyggð

Kosið var um sameiningu sveitarfélaganna í Austur-Húnavatnssýslu sumarið 2021 og var ekki meirihluti fyrir henni á Skagaströnd og í Skagabyggð. Blönduós og Húnavatnshreppur ákváðu í framhaldinu að sameinast í Húnabyggð en kannaður var hugur íbúa á Skagaströnd og í Skagabyggð að sameinast. Niðurstaða þeirrar könnunar var 26 með en 25 á móti í Skagabyggð á meðan góður meirihluti Skagstrendingur var hlynntur sameiningu. Í kjölfarið bókaði sveitarstjórn Skagabyggðar að ekki væri samstaða innan sveitarstjórnar til þess að hefja formlegar sameiningarviðræður við Skagaströnd.

Á sveitarstjórnarfundi Skagabyggðar nú í apríl lá fyrir samþykkt frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga um fjárstyrk til vinnu starfshóps sem yrði mannaður af foreldrum barna á aldrinum 0 til 12 ára, um sameiningarvalkosti. 

Að sögn Erlu Jónsdóttur, oddvita Skagabyggðar, var hópurinn skipaður foreldrum barna á aldrinum 0-12 ára því það var álit sveitarstjórnar að sá hópur hefði mestra hagsmuna að gæta varðandi sameiningu. Í byrjun nóvember lá fyrir niðurstaða starfshópsins og ákvað sveitarstjórn í framhaldinu að fela oddvita að hefja samtal við Húnabyggð um mögulega sameiningu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir