Hollvinasamtök HSB láta gott af sér leiða
Aðalfundur Hollvinasamtaka HSB á Blönduósi var haldinn í síðustu viku en þar var hlaupið yfir starfsemi síðastliðins árs. Á Húni.is kemur fram í pistli stjórnar að meðal þess sem samtökin tóku sér fyrir hendur var að kaupa nuddbekk í janúar og æfingatæki í aðstöðu sjúkraþjálfara. Þá voru gefnar spjaldtölvur og heyrnatól á deildir HSB og Hnitbjarga. Súrefnistæki fór til Sæborgar á Skagaströnd og þá söfnuðu þær Angela Berthold sjúkraþjálfari og Eva Hrund Pétursdóttir iðjuþjálfi fyrir þjálfunarhjóli fyrir sjúkradeild 1 og 2.
Á aðalfundinum afhentu hollvinir sjúkradeild HSB rafdrifinn hægindastól en Sigurbjörg S. Guðmundsdóttir, ættuð frá Neðri Mýrum, færði samtökunum peningagjöf til minningar um eiginmann sinn, Jón Bjarnason sem lést langt fyrir aldur fram. Hann hefði orðið 75 ára þann 24. janúar síðastliðinn. „Ákveðið var að kaupa þennan stól og er Sigurbjörgu þakkað hjartanlega fyrir sitt framlag. Stóllinn kemur skjólstæðingum HSB svo sannarlega að góðum notum,“ segir á Húni.is.
„Í byrjun þessa árs fengu hollvinasamtökin höfðinglega gjöf frá ELKO, fyrir tilstilli Báru Sifjar Magnúsdóttur, sem er barnabarn Báru Þorvaldsdóttur og Gunnars heitins Sveinssonar frá Skagaströnd. Bára Sif vinnur hjá ELKO og var það fyrir hennar tilstilli að hollvinasamtökin fengu úthlutað 100.000 króna úttekt hjá fyrirtækinu. Styrkurinn var notaður til kaupa á 55 tommu sjónvarpstæki sem staðsett er á sjúkradeild B.
Viljum við þakka öllum félögum okkar og velunnurum fyrir stuðninginn undan farin ár og munum að standa þarf vörð um Heilbrigðisstofnunina okkar hér á Blönduósi. Munum nýir félagar ávallt velkomnir.“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.