Heimsóknabann á hjúkrunar- og sjúkradeildum HSN

Vegna aukins fjölda smita á Norðurlandi hefur Heilbrigðisstofnun Norðurlands ákveðið að loka tímabundið fyrir heimsóknir á sjúkra- og hjúkrunardeildir frá og með gærdeginum. Heimsóknarbann gildir til 17. nóvember en staðan verður þá endurmetin.

Á heimasíðu stofnunarinnar segir að íbúar eigi að halda sig innan heimila og skulu ekki fara í heimsóknir eða ferðir utan heimilis og starfsfólk áfram hvatt til að gæta ýtrustu varúðar í samskiptum og umgengni við annað fólk utan vinnutíma. Áfram er grímuskylda hjá starfsfólki og starfsfólk fer ekki á milli svæða nema nauðsynlegt sé og í samráði við yfirmenn.

HSN hvetur aðstandendur til að nýta síma, myndsímtöl og aðra mögulega samskiptahætti sé þess kostur en starfsfólk er reiðubúið að veita aðstoð ef þess þarf. Undanþága frá heimsóknarbanni er veitt við mikil veikindi íbúa og þarf þá að fá leyfi deildarstjóra.
„Þetta er erfið ákvörðun að taka og vonumst við til þess að hægt verði að aflétta heimsóknarbanni sem fyrst,“ segir á hsn.is.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir