Heim að Hólum á aðventu

Háskólinn á Hólum býður alla velkomna á opinn dag heim að Hólum nú á laugardaginn, 11. desember, og verður húsið opið á milli kl. 12-15. Feykir hafði samband við Eddu Matthíasdóttur sem nýlega var ráðin sviðsstjóri mannauðs, gæða og rekstrar við Háskólann á Hólum, og spurði hvað stæði til. Hún benti snöfurmannlega á ítarlega dagskrá sem finna mætti á Hólar.is og segir dagskrána fyrir fólk á öllum aldri, stærðum og gerðum!

Edda, sem er dóttir Matta Viktors (fyrrum félagsmálastjóra á Sauðárkróki) og Ingu Andreasen (kennara og skátahöfðingja), er nýflutt í Skagafjörðinn eftir langa útivist í Noregi og hún var meira en til í að kynna opna daga fyrir lesendum Feykis.

„Allir eru velkomnir Heim að Hólum á aðventu. Við vitum að það eru margir sem eiga sérstök tengsl við Hóla og hafa saknað þess að heimsækja þetta frábæra umhverfi hér í Hjaltadalnum,“ segir Edda. „Margir Skagfirðingar eiga góðar æskuminningar úr skólabúðum og sumarbúðum á Hólum, og svo er þetta náttúrulega mikilvægur staður fyrir sögu Íslands. Þess vegna viljum við opna svæðið fyrir almenningi og leyfa fólki bæði að rifja upp það sem áður var og sjá þær nýjungar sem fylgja Háskólanum. Við vonumst til að þessu verði vel tekið svo opnir dagar haldi áfram sem árlegir viðburðir, einn á aðventu og annar að vori.“

Eru opnir dagar á Hólum ætlaðir verðandi nemum eða öllum forvitnum? Dagskráin er fyrir fólk af öllum aldri, stærðum og gerðum! Sumt hentar meira fyrir krakkana og annað fyrir þá sem eldri eru en allir ættu að geta fundið eitthvað sem passar. Þú getur rölt um ganga skólans og skoðað gömlu myndirnar og málverkin þar, kíkt inn í skólastofur, skoðað fiska og fengið að prófa smásjá, víðsjá og fleira skemmtilegt. Kíktu svo í sögugöngu um Hólastað með Skúla, sem lumar bæði á mikilli kunnáttu um sögu Hóla og ýmsum skemmtilegum sögum um nemendalíf skólans gegnum árin. Þú skellir þér svo upp í skóg og nærð þér í jólatré áður en þú sest niður hjá Kaffi Hólum til að safna kröftum, drekka glögg og njóta frábærra veitinga.

Í lok dagsins opnum við hesthúsið Brúnastaði þar sem hægt er að koma inn og skoða aðstöðuna og jafnvel klappa einhverjum skólahestum. Á sama tíma getið þið séð hestaeigendur sækja tamningatryppi sem hafa verið í tamningu hjá hestafræðinemum þessa önnina. Svæðin verða afgirt svo þið þurfið ekki að vera hrædd við að koma með börn inn hjá rólegu skólahestunum þó það sé trafík hjá tryppunum í hinum enda hesthússins. Deginum lýkur svo með jólasýningu hestafræðinema í frábæru reiðhöllinni okkar, Þráarhöll. Þar sitja gestir í þægilegri stúku á meðan sýning fer fram, en við mælum með að allir séu vel klæddir. Dagskrá jólasýningarinnar er alfarið í höndum nema, enda er framkvæmd sýningarinnar hluti af lokaprófi hjá þeim.“

Er eitthvað sem fólk þarf að hafa í huga áður en það mætir heim að Hólum? „Við munum hólfaskipta svæðinu og telja við innganginn þannig að heildarfjöldi gesta fari aldrei yfir 50 manns í hverju rými. Einnig höfum við ákveðið að hafa grímuskyldu í lokuðum rýmum. Við viljum þó benda á að öll rýmin eru stór og gefa því góða möguleika á að halda góðri fjarlægð við ótengda aðila,“ segir Edda.

Skilasýning tamningatryppa fer fram fyrr sama dag, en hún er eingöngu opin hestaeigendum. „Við hvetjum gesti til að fylgja skiltum og reyna ekki að nálgast aðra hesta en skólahestana, sem þau geta séð og klappað í Brúnastöðum,“ segir Edda að lokum.

Ítarlega dagskrá opinna daga, með lýsingum og tímasetningum, má finna á Hólar.is >

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir