Heim að Hólum
Nú fyrsta apríl eru 40 ár síðan ég var skipaður skólastjóri á Hólum í Hjaltadal. Við Ingibjörg – ásamt börnum okkar fluttum frá Bjarnarhöfn á Snæfellsnesi Heim á Hólastað þá um sumarið. Reglubundið skólahald hafði þá legið niðri við Bændaskólann um tveggja ára skeið og framtíð Hóla mjög í óvissu.
Endurreisn Hóla
Sú ákvörðun lá á borðum stjórnvalda þá að loka bæri Hólastað sem skólasetri. En ríkisstjórn Gunnars Thoroddsen, sem kom skyndilega til valda 1980, sneri þeim áformum við – skólinn skyldi endurreistur. Stofnuð var ný skólanefnd – mönnuð norðanmönnum undir forystu Gísla Pálssonar á Hofi. Allt einstaklingar sem voru tilbúnir að taka til hendinni. Og til þess að undirstrika alvarlega stöðuna og marka enn frekar nýtt upphaf – hafði öllu starfsfólki skólans verið sagt upp störfum. Þannig að hinn 1. apríl 1981 var ég eini starfsmaður Hólaskóla með fasta ráðningu.
Spennandi áskorun
Það var bæði tækifæri fyrir mig – til þess að móta nýjan skóla en jafnframt gríðarleg áskorun. Mér leið því dálítið fyrsta kastið – eins og Palla einum í heiminum, svaf á dýnu í einni kennslustofunni. Það átti þó eftir að breytast mjög hratt. Ég fékk mikinn stuðning frá ríkisstjórninni fyrir þetta verkefni. Þeir Pálmi Jónsson, á Akri, landbúnaðarráðherra, og Ragnar Arnalds, fjármálaráðherra, studdu mig með ráðum og dáð. Skagfirðingarnir og ráðherrarnir Ólafur Jóhannesson og Steingrímur Hermannsson stóðu að sjálfssögðu fast að baki Hóla.
Ég man sérstaklega eftir því að Pálmi hringdi í mig og lagði áherslu á að Ingibjörg Sólveig Kolka, kona mín, yrði þá strax ráðin sem einskonar Húsfreyja Hólastaðar, sem hann og gerði. Og ég var sannarlega ekki einn með hana mér við hlið og gæfa fyrir Hóla.
Afbragðs starfsfólk - góðir nemendur
En annars var það mitt fyrsta verk að endurráða Grétar Geirsson sem bússtjóra, Jónínu Hjaltadóttur sem matráð og Jón Friðbjörnsson sem umsjónarmann eða staðarsmið. Síðan bættist fleira fólk við. Okkur heppnaðist að ráða að staðnum afbragðsgott starfsfólk sem einhenti sér af fullum krafti í hið mikla uppbyggingarverkefni er var framundan. Þetta var í raun mjög gaman.
Héraðið stóð vel að baki Hólum þegar stefnan var tekin. Skólahús voru flest komin í niðurníðslu og víða þurfti að taka til hendi. Hólalax var þá rétt að taka til starfa. Hitaveita Hjaltadals komin á skrið og síðan ný sundlaug.
Eitt fyrsta verkið var að byggja ný hesthús – enda átti kennslan að vera með nýjum áherslum – á hrossarækt og tamningar, loðdýrarækt og fiskeldi. Hafa þessar áherslur staðið síðan – fyrir utan að ferðaþjónusta hefur leyst loðdýraræktina af hólmi.
Það var samt mín bjargfasta skoðun að endurreisnin snerist ekki aðeins um skólann sjálfan – heldur Hólastað allan, stöðu hans og sess í sögu landsins – og með áherslu á hliðarstarfsemi sem gæti stutt við lifandi mannlíf.
Í þessu skyni var margt brallað. Stofnað var útibú Veiðimálastofnunar, sumarbúðir fyrir börn, farið út í umfangsmikla skógrækt, vígslubiskupsetrið fært heim á staðinn. Ferðaþjónusta var efld sem og fjölþættar rannsóknir. Og svo mætti áfram telja. Metnaður okkar á Hólum var að Skagfirðingar, Norðlendingar, já landsmenn allir gætu átt erindi og lagt leið sína með stolti Heim að Hólum.
Verkin tala fyrir sig
Nú – 40 árum seinna verða aðrir að dæma um árangurinn. Ég var skólastjóri í 19 ár á miklum umbrotatímum. Okkur Ingibjörgu verður hins vegar hugsað til allra vina okkar – í Skagafirði og landinu öllu – sem komu að verki við að endurbyggja Hóla á þessum örlaga tímum staðarins. Nemendur – kennarar – starfsfólk og hinir fjölmörgu velunnarar Hóla, kærar þakkir fyrir góð ár.
Margir hafa nú fallið frá – blessuð sé minning þeirra. En okkur Ingibjörgu langar til þess að koma einlægu þakklæti til þeirra sem enn lifa og muna.
Lifi Hólar
Já – 1. apríl 1981 var mikill örlagadagur fyrir mig og okkur Ingibjörgu. Fjölskyldan okkar hefur ávallt staðið þétt saman í þessu verkefni. Börnin okkar ólust upp á Hólum og tvö þau yngstu fæddust þar. Þau hafa öll notið skagfirsks menningarlífs og norðlenskra menntastofnanna.
Já – mér finnst þetta gæfudagur.
Það er stutt í vorið. Við Ingibjörg óskum vinum og velunnurum gleðilegra páska og Hóla í Hjaltadal allrar blessunar. Lifi Hólar!
Jón Bjarnason
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.